Leiðtogafundur Evrópuráðsins hefur verið haldinn á Íslandi.
Vonandi kemur hann til með að leiða til góðs í víðum skilningi.
Þar hlýtur manni að vera efst í huga að forgangsatriði hljóti að vera að þessu
blóðbaði í Evrópu ljúki sem allra fyrst.
Það er hræðilegt að hugsa til þess að við séum enn á þessum
stað mannfólkið en það er sennilega borin von að við losnum nokkurn tíma við
einræðisherrana. Þessa tegund sem aftur og aftur og aftur tekst að eyðileggja
líf heilu þjóðanna. Pútin er fyrirlitlegur - sem fyrirrennarar hans af sömu tegund.
Fyrirlitlegur og aumkunarverður.
Ég er einarður stuðningsmaður alþjóðasamvinnu og lít svo á
að hún sé alltaf af hinu góða. Bara það að manneskjur hittist og eigi samskipti
er gríðarlega mikilvægt sem ekkert kemur í staðinn fyrir. Þess vegna gladdist
ég mjög að hlusta á Ingibjörgu Sólrúnu í morgunútvarpinu á mánudaginn var þar
sem hún ítrekaði mikilvægi þess að vesturlönd gerðu allt til þess að halda
samtalinu – alltaf. Við talibana í Afganistan eins og aðra. Þetta viðhorf boðar
nefnilega von. Það lokar ekki heldur opnar.
Ég er hugsi eftir þennan leiðtogafund. Það var skrítið að
vera Íslendingur með brennandi áhuga á alþjóðastjórnmálum í Reykjavík þessa
daga. Það hafði ekki góð á áhrif á mann þessi gríðarlega öryggisgæsla. Að hafa þyrlur
sveimandi um yfir og allt um kring og vera stödd niðrí í bæ á mánudagskvöld þar
sem búið var að girða af allt umhverfið og maður sá varla nokkra sálu nokkurs
staðar. Bærinn var að tæmast af fólki vegna þessa fundar. Var þetta
nauðsynlegt? Þetta virkaði mjög neikvætt á mig. Skildi með þessum ráðstöfunum
að þessi hópur var orðinn „þetta fólk“. Skör hærra en við pöpullinn. Ósnertanleg
elíta. Ég er að lýsa tilfinningu.
Veðrið hefði mátt vera okkur hliðhollara… Það ákvað að vera
ekki með okkur í liði þessa daga…
Fréttaflutningurinn var þess eðlis að ég var með kjánahroll
allan tímann. Hégómleiki Íslendinga á sér engin takmörk og þessi krafa
fréttamanna um að þessi fundur sé og verði „sögulegur“ í samtíma er svo
hlægilegur. Þessi krafa þeirrra um „niðurstöðu“ af fundinum til að réttlæta
hann er svo dapurlegur. Beinlínis hættulegur svei mér þá. Hvaða niðurstöðu er
hægt að krefast af svona fundi? Á meðan enn er verið að skjóta eldflaugum í
miklum móð að Úkraínu? Hvaða „niðurstaða“ andstæðinga þessa stríðs er hjálpleg
á þessari stundu?
Erum við alveg búin að gleyma sögunni? Hvað var það sem
leiddi til síðari heimsstyrjaldarinnar?
Við Íslendingar – ein „hinna viljugu“ þjóða í upphafi þessarar aldar – erum við
búin að gleyma því?
Afleiðingar þess stríðs – hverjar eru þær?
Ég veit það ekki. Ég ber virðingu fyrir að menn komi saman
og eigi samskipti. Einarður stuðningsmaður þess – ávallt. En það skiptir máli
hvað menn ætla sér. Ég er ekki ein þeirra sem held að „niðurstaða“ sé endilega
eftirsóknarverð af slíkum fundi eins og hér var haldinn.
Nema í þá veru að stuðla að friði.
Það hlýtur að vera eina niðurstaðan sem raunverulega er eftirsóknarverð og
skiptir máli.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli