miðvikudagur, 22. nóvember 2023

Spilaborgin – 1982 - 2008

10 bindi – karlmannsbindi - upphleypt og röðuð í valdapíramída – framan á kápunni. Mjög táknræn og góð byrjun sem segir til um innihald bókarinnar. Eimreiðarelítan – Spillingarsaga heitir bókin sem hér er vísað til og ég kláraði í fyrrakvöld. 464 síðna bók sem segir okkur söguna af því sem hér gerðist á árunum 1982 til ársins 2008. Loksins! Loksins er komin út bók sem segir söguna eins og hún var. Það er sálrænt ákaflega mikilvægt fyrir mig og ég trúi því að svo sé um marga aðra. Spillingin sem hér er líst á trauðla sinn líka í vestrænu samfélagi þó víðar væri leitað…

Eimreiðarelítan er ekki fræðibók. Hún er ekki bók sem hægt er afgreiða sem slíka. Hún er bók sem lýsir því sem raunverulega gerðist. Hún lýsir því hvert var aðal viðfangsefni stjórnmálanna á Íslandi í 30 ár. Spilling. Að koma eignum ríkisins í hendur fámennrar karlaklíku sem á sama tíma hafði tögl og hagldir alls staðar – hvert sem litið var. Þeir stjórnuðu lífeyrissjóðunum, þeir stjórnuðu stjórnmálunum, þeir stjórnuðu fyrirtækjunum – að ógleymdri Kauphöllinni. Sem var aðal valdatækið. Kauphöllin sem malaði gull undir þessa karla og þeirra lið í þennan tíma þar til spilaborgin hrundi yfir okkur… fávísan almenning… ekki yfir alla. Við skulum hafa það alveg á hreinu. Þeir sem voru í klíkunni stóðu uppi keikir.

Það er rosalegt að lesa þessa bók. Ég ætla alls ekki að halda því fram að ég sé sammála henni í öllu. Það er ég ekki. En meginstefið er að gefa okkur yfirsýn yfir það sem hér gerðist frá því Davíð Oddsson tók við stjórnartaumunum í Reykjavíkurborg árið 1982 og fram að hruni og það tekst. Fullkomlega. Það er bókstaflega magnað að sjá hversu einbeittur viljinn var til að ná völdum í íslensku samfélagi og hversu áhugalaus hópurinn var um að leyfa öðrum að eiga hlutdeild í fagnaðarerindinu. „Frelsið“ var ekki fyrir alla. Það var bara fyrir suma. Og því ekki einu sinni leynt. Línurnar voru lagðar um það að það væri fullkomlega eðlilegt og sjálfsagt að forsætisráðherra þjóðarinnar nafngreindi óvini sína – þá sem ekki máttu vera memm og þannig er sviðið enn. Íslensk valdaelíta hefur engan áhuga sýnt á því að gera upp þessa tíma nema síður sé og hér sitjum við enn með sárin og ónýta innviði og helst á öllu að skilja að til standi að taka annan snúning. Í það minnsta var það helst það sem mér datt í hug þegar ég sá myndir frá „Þjóðmálakvöldinu“ á dögunum. Mér fannst uppsetningin gefa það til kynna að það væri það sem stæði til. Það var tekið aftur af stað með sölunni á hlut í Íslandsbanka og kannski var „Þjóðmálakvöldið“ bara til að fagna því og efla menn til dáða.

Ég persónulega fékk mikið út úr því að lesa þessa bók. Ég sem lengst af þessa tíma starfaði fyrir kjarna þessa hóps með bullandi pólitískan áhuga fylgdist með ósköpunum í forundran og skildi ekki hvað gekk á. Ég fór í nám á Bifröst árið 1999 en þá voru stjórnendur fyrirtækja ennþá „venjulegir menn“ að mestu. Þegar ég kom út árið 2002 voru þeir allir orðnir að „guðum“. Í litlum sem smáum fyrirtækjum – allir komnir í guðatölu með guðleg laun. Frá árinu 2002 var ekki hægt að fara í fermingarveislu öðruvísi en allir karlarnir í veislunni væru að tala um hlutafjárkaup í deCode eða Eimskip og allir ætluðu að græða og græða meira. Ég var miður mín. Ég hélt þegar ég fór á Bifröst að samfélagið gæti ekki orðið sýktara af tali um peninga! En þar skjátlaðist mér. Rosalega skjátlaðist mér.

Ég bókstaflega fylgdist með því í beinni þegar Hannes Hólmsteinn Gissurarson kom á Bifröst með fyrirlesturinn um að „Ísland yrði ríkasta land í heimi“… Já það var það sem til stóð. Það var það sem ætlunin var. Því er lýst í bókinni hvernig stjórnmálin og viðskiptalífið á Íslandi var bókstaflega sami hluturinn eða svona því sem næst… og hvernig þeir notuðu fjölmiðlana eins og Ríkisútvarpið til að segja uppsprengdar fréttir af einstökum samningum sem keyrðu upp verð hlutabréfanna í Kauphöll aftur og aftur og aftur…

Já þetta er saga sem þarft er að segja og var satt að segja tími til kominn.

Til hamingju Þorvaldur Logason og hafðu bestu þakkir fyrir!

https://www.penninn.is/is/book/eimreidarelitan-spillingarsaga

P.S. Og ég legg til að forsvarsmenn Hagsmunasamtaka heimilanna lesi þessa bók. Helst tvisvar.

fimmtudagur, 18. maí 2023

Hugleiðingar að loknum leiðtogafundi 18. maí 2023

Leiðtogafundur Evrópuráðsins hefur verið haldinn á Íslandi.
Vonandi kemur hann til með að leiða til góðs í víðum skilningi.
Þar hlýtur manni að vera efst í huga að forgangsatriði hljóti að vera að þessu blóðbaði í Evrópu ljúki sem allra fyrst.

Það er hræðilegt að hugsa til þess að við séum enn á þessum stað mannfólkið en það er sennilega borin von að við losnum nokkurn tíma við einræðisherrana. Þessa tegund sem aftur og aftur og aftur tekst að eyðileggja líf heilu þjóðanna. Pútin er fyrirlitlegur - sem fyrirrennarar hans af sömu tegund. Fyrirlitlegur og aumkunarverður.

Ég er einarður stuðningsmaður alþjóðasamvinnu og lít svo á að hún sé alltaf af hinu góða. Bara það að manneskjur hittist og eigi samskipti er gríðarlega mikilvægt sem ekkert kemur í staðinn fyrir. Þess vegna gladdist ég mjög að hlusta á Ingibjörgu Sólrúnu í morgunútvarpinu á mánudaginn var þar sem hún ítrekaði mikilvægi þess að vesturlönd gerðu allt til þess að halda samtalinu – alltaf. Við talibana í Afganistan eins og aðra. Þetta viðhorf boðar nefnilega von. Það lokar ekki heldur opnar.

Ég er hugsi eftir þennan leiðtogafund. Það var skrítið að vera Íslendingur með brennandi áhuga á alþjóðastjórnmálum í Reykjavík þessa daga. Það hafði ekki góð á áhrif á mann þessi gríðarlega öryggisgæsla. Að hafa þyrlur sveimandi um yfir og allt um kring og vera stödd niðrí í bæ á mánudagskvöld þar sem búið var að girða af allt umhverfið og maður sá varla nokkra sálu nokkurs staðar. Bærinn var að tæmast af fólki vegna þessa fundar. Var þetta nauðsynlegt? Þetta virkaði mjög neikvætt á mig. Skildi með þessum ráðstöfunum að þessi hópur var orðinn „þetta fólk“. Skör hærra en við pöpullinn. Ósnertanleg elíta. Ég er að lýsa tilfinningu.

Veðrið hefði mátt vera okkur hliðhollara… Það ákvað að vera ekki með okkur í liði þessa daga…

Fréttaflutningurinn var þess eðlis að ég var með kjánahroll allan tímann. Hégómleiki Íslendinga á sér engin takmörk og þessi krafa fréttamanna um að þessi fundur sé og verði „sögulegur“ í samtíma er svo hlægilegur. Þessi krafa þeirrra um „niðurstöðu“ af fundinum til að réttlæta hann er svo dapurlegur. Beinlínis hættulegur svei mér þá. Hvaða niðurstöðu er hægt að krefast af svona fundi? Á meðan enn er verið að skjóta eldflaugum í miklum móð að Úkraínu? Hvaða „niðurstaða“ andstæðinga þessa stríðs er hjálpleg á þessari stundu?

Erum við alveg búin að gleyma sögunni? Hvað var það sem leiddi til síðari heimsstyrjaldarinnar?
Við Íslendingar – ein „hinna viljugu“ þjóða í upphafi þessarar aldar – erum við búin að gleyma því?
Afleiðingar þess stríðs – hverjar eru þær?

Ég veit það ekki. Ég ber virðingu fyrir að menn komi saman og eigi samskipti. Einarður stuðningsmaður þess – ávallt. En það skiptir máli hvað menn ætla sér. Ég er ekki ein þeirra sem held að „niðurstaða“ sé endilega eftirsóknarverð af slíkum fundi eins og hér var haldinn.
Nema í þá veru að stuðla að friði.
Það hlýtur að vera eina niðurstaðan sem raunverulega er eftirsóknarverð og skiptir máli.

 

föstudagur, 24. mars 2023

Kennsla eða gæsla?


Las tvær greinar hér á vefnum í gær sem vöktu áhuga minn. Önnur var skrifuð af leikskólastjóra Jónínu Einarsdóttur og hin af formanni Félags leikskólakennara Haraldi Frey Gíslasyni. Báðir einstaklingar sem ég virði mikils en rak mig á við lestur þessara greina að ég sé ástæðu til að andmæla þeim. Upphátt með skýrum hætti.

Bæði gerðu að umtalsefni mikilvægi leikskólanna og leikskólakennarastarfsins – þar erum við svo sannarlega sammála. Fáar stofnanir samfélagsins tel ég mikilvægari og það sama á við um stéttina sem starfi þeirra stýra – leikskólakennara. Starf þeirra er gríðarlega mikilvægt.

Hvað var það þá sem ég sá ástæðu til að andmæla með skýrum hætti? Það var sú tilhneiging þeirra beggja að kannast ekki við að hlutverk þeirra sé annað en „kennsla“ yngstu barnanna. Nánast eins og það snerti ekki foreldrana með neinum hætti eða komi þeim við. Leikskólar séu bara mikilvægar stofnanir til að „kenna“ yngstu börnunum og „gæsla“ eigi þar engan hlut að máli. Þessu sé ég tilefni til að mótmæla. Svo ekki fari milli mála. 

Leikskólar eru gríðarlega mikilvægar stofnanir. Gríðarlega. Og hafa grundvallaráhrif á velsæld fjölskyldna í landinu. Um það efast ég ekki eitt augnablik. En að halda því fram að „gæsla“ barna sé eitthvað niðrandi fyrirbæri sem ekki megi tala um í sambandi við hlutverk leikskóla er eitthvað sem ég get ekki sætt mig við.

Það er þannig hvort sem Haraldi Frey eða Jónínu líkar það betur eða verr að leikskólar með aðgangi allan daginn fyrir öll börn er grundvöllur að raunverulegi jafnrétti kynjanna á Íslandi. Þannig var það þegar ég var ung. Þannig er það enn. Ef að konur eiga að eiga raunverulegt val um að velja sér starfsvettvang og helga sig honum – til jafns við karla. Verða að vera til leikskólar til að „gæta“ barnanna. Og það er ekki eitthvað lítilsiglt ómerkilegt hlutverk. Það er hlutverkið. Það sem öllu máli skiptir. Þannig var það þá og þannig er það enn.

Það mikilsverðasta í lífi hvers barns er að umönnunaraðilar þess hvort sem það eru tvær mömmur, tveir pabbar, pabbi og mamma eða hvað annað er ást þeirra þeim til handa. Hvort að þau eru á leikskólanum í 8 tíma eða 9 tíma hefur engin grundvallaráhrif á velferð þeirra sem fullorðinna manneskja. Það skiptir máli að innan leikskólanna starfi fagfólk – leikskólakennarar og að þau njóti stuðnings og verðlauna í samhengi við starf sitt.

Lengi vel var það svo að ánægja foreldra með leikskóla í landinu var umtalsverð. Svo mikil að eftir því var tekið. Það var ekki þannig með skólana á sama tíma. Samt er það svo að leikskólakennarar sjálfir tala um skólana og starfið sem þar fer fram sem svo miklu merkilegra starf en starfið innan leikskólanna. Til að njóta virðingar verður það að heita „kennsla“ og það verður helst að hafa umgjörð sem er sambærileg við umgjörð kennara í skólum landsins!

Hér finnst mér vert að staldra við. Hverjar eru þarfir foreldra fyrir starf leikskóla? Skipta þær engu máli? Af því að um ræðir þarfir kvenna er þá leyfilegt og sjálfsagt að láta eins og þær séu ekki til og skipti engu máli? Hvar eruð þið ungu konur sem þurfið á leikskólaplássum að halda? Ætlið þið að leyfa þessari umræðu að þróast með þessu hætti lengi enn?

Börn undir sex ára aldri (og reyndar miklu lengur…) þurfa fyrst og fremst ást. Og þau þurfa rúm til að að leika sér. Leikurinn er það mikilvægasta fyrir hvert barn á þessum aldri og það er hann sem leikskólinn á að standa vörð um. Það getur vel verið að það heiti „kennsla“ frekar en „gæsla“ en það breytir ekki því að gæsluhlutverkið er ekki síður mikilvægt. Gæslan er hvorki meira né minna en grundvallaratiði þess að hægt sé að tala um jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði.
Má ég biðja ykkur forsvarsmenn leikskóla að gleyma því ekki?

föstudagur, 27. janúar 2023

Pabbi - minning 27. janúar 2023



Elsku pabbi. Nú er komið að því að kveðja. Þér lá á þegar að því kom – við rétt klár að setja okkur í stellingar að komið væri að kveðjustund þegar þú varst bara farinn – yfirgafst þessa jarðvist hljóðlega og án átaka. Það var skrítin tilfinning að fá fréttirnar – svolítið eins og að hafa misst af því að segja bless svo ég segi það með þessum orðum í staðinn.

Ég kann best að lýsa þér með ást þinni á kveðskap. Ég hef engum öðrum kynnst á minni ævi með aðra eins ást á hvers kyns kveðskap. Þú kunnir utan að ógrynni af vísum og ljóðum og undir það síðasta þegar getan var farin á mörgum sviðum var þetta svið eftir og þú naust þess óspart. Það síðasta sem þú hafðir að segja við mig daginn áður en þú fórst var vísa.

Ég minnist þín skellihlæjandi inni í herbergi að lesa Ævisögu Árna prófasts Þórarinssonar. Það var unun að hlusta á þig skellihlæja upphátt við lesturinn. Í minningunni lastu þessar bækur reglulega.

Ég horfi á þig kjá framan í börn og leika við þau. Bræður mína og systur, barnabörn bræðra þinna, dóttur mína, önnur barnabörn þín og langafabörn. Þú elskaðir börn og þau elskuðu þig.

Ég horfi á þig ganga að mömmu þar sem hún er að elda kvöldmatinn og snerta hana með þeim hætti að við vorum alltaf handviss um að þú elskaðir hana meira en allt.

Ég minnist ykkar koma heim af böllum eins og ástfangnir unglingar. Ég var svo montin af því. Mér fannst svo gott að eiga foreldra sem elskuðu hvort annað heitt.

Ég minnist þín fá börn bræðra þinna í heimsókn. Sýna þeim áhuga og eiga við þau langar samræður um allt milli himins og jarðar.

Ég minnist hlátraskalla þinna, viðkvæmni þinnar, barnsins sem alltaf var grunnt á þegar þú varst annars vegar. Ég hefði viljað kynnast þessu barni nánar en þú vildir það ekki.

Mig langar að þakka þér fyrir allt. Þakka þér fyrir atlætið í æsku. Þakka þér fyrir ástina sem þú barst til mömmu og okkar allra barnanna þinna, barnabarnanna, langafabarnanna og til barna allra bræðra þinna. Þakka þér fyrir áhugann sem þú sýndir þeim síðasttöldu alltaf þegar þau komu yfir til okkar og skipti mig alltaf svo miklu máli. Það er nefnilega ástin sem öllu skiptir – held ég. Ég held það sé ástin – kærleikurinn sem maður skilur eftir sig sem skiptir máli. Þar stóðst þú þig vel pabbi – þú snertir hjörtu margra. Ég elska þig.

Það var eitt kvöld að mér heyrðist hálfvegis barið,
ég hlustaði um stund og tók af kertinu skarið,
ég kallaði fram, og kvöldgolan veitti mér svarið:
Hér kvaddi Lífið sér dyra, og nú er það farið.
                                                (Jón Helgason)

Takk fyrir allt pabbi minn.

Þín dóttir,
Signý.

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...