Virðist sem hluti landsmanna sem tilheyrir tilteknum stjórnmálaflokki líti á sem eðlilegt og sjálfsagt. Það er ástæða til að segja þeim að svo er ekki. Kauphallir gegna almennt ekki sama hlutverki og spilavíti og eiga ekki að gera það.
Að selja hluti í ríkisbanka að kvöldi dags til að útvalinn
hópur einstaklinga geti selt hann daginn eftir fyrir umtalsvert hærra verð
getur ekki verið dæmi um að sala hlutafjár í ríkisbankanum „hafi tekist vel“.
Að fá hópi ungra stráka hlutverkið að selja hlutaféð
útvöldum hópi og þiggja í staðinn bónus upp á milljónir er ekki dæmi um að sala
á hlutafé í bankanum „hafi tekist vel“. Það er ekki mikill vandi að selja
hlutafé með afslætti sem vitað er að hægt er að selja aftur á morgun fyrir mun
hærra verð. Slíkur verknaður krefst engra verðlauna.
Ríkisfyrirtæki sem eru seld eiga eftir gjörninginn að virka
sem sterk og góð samkeppnisfyrirtæki á markaði. Virkum markaði þar sem
samkeppnin er leiðarljósið. Þeirra markmið er ekki að vera höfuðstóll í
spilavítinu.
Það er ástæða til að segja þessum tiltekna hópi
stjórnmálaflokksins sem innfelur hina útvöldu þetta. Með alveg skýrum hætti.
Við búum í samfélagi. Samfélagi sem hefur tekist að byggja upp úr örbyrgð í
allsnægtir á 100 árum.
Við þegnarnir höfum verið gerð að þátttakendum í spilavíti
í meira hátt í 20 ár. Höfum á þeim tíma
einu sinni upplifað algjört hrun sem olli því að fjöldi fólks missti allt.
Heilsuna, eigur sínar - allt.
Nú viljum við sjá skipt um kúrs. Við viljum ekki meira af
spilavíti. Við viljum traust og ábyrgð við framkvæmd á sölu ríkisfyrirtækja.
Markmið þeirra sem halda utan um slíka hluti hlýtur að vera að sjá til þess að
þessi tvö orð séu höfð að leiðarljósi: Traust og ábyrgð.
Það þýðir að við sölu á hlut í ríkisbanka hlýtur það að vera
meginmarkmið að koma hlutafénu í hendur þeirra sem hafa áhuga á að reka
alvörubanka á alvörusamkeppnismarkaði til lengri tíma. Banka sem virkar sem
banki fyrir fólk og fyrirtæki á samkeppnismarkaði en ekki sem höfuðstóll fyrir
útvalinn hóp til að græða á. Bankar eða fyrirtæki almennt eiga ekki að vera
rekin til þess. Bankar og fyrirtæki sem eru rekin með gróðahugsjónina eina að
markmiði eiga engan tilverurétt í samfélaginu og ástæða til að minna á það.
Eitt af því sem stjórnvöld og Alþingi eiga augljóslega að
gera er að gera ráðstafanir til að útrýma söluhvata aðferðafræðinni úr
samfélaginu. Alveg. Það er enginn vandi að selja það sem mikil eftirspurn er
eftir og það er nákvæmlega engin ástæða til að ala á spilavítishugsuninni með
því að gera slíkri aðferðafræði hátt undir höfði. Við eigum fullt af
listaverkum sem sýna okkur afleiðingar slíkrar heimsku – til að nefna bara tvö:
Inside Job, The smartest guys in the room. Þessar tvær myndir væri fínt að
alþingismenn og stjórnvöld á Íslandi horfðu á reglulega. Þær eru fín áminning
um hvaða þætti mannsins við eigum ekki að hvetja.
Í framhaldinu væri fínt að heyra íslenska stjórnmálamenn
tala um það hvernig þeir geta búið okkur umhverfi til framtíðar þar alvöru
samkeppni fyrirtækja á markaði væri markmiðið. Að búa okkur umhverfi þar sem
fyrirtækin í Kauphöll Íslands myndu hækka í verði vegna raunverulegra
rekstrarafkomu sem byggði á fyrirmyndar rekstri þeirra. Það væri verðugt
markmið fyrir alvöru stjórnmálamenn.