hefur löngum þótt verðug íþrótt. Þannig er það enn. Svo
rammt kveður að þessu á Alþingi þessa dagana að það er ekki laust við að fari
um mann. Svo blygðunarlaust og fyrir opnum tjöldum er þetta reynt sbr. þessi
umræða hér frá Alþingi 15. apríl sl. https://www.althingi.is/altext/upptokur/lidur/?lidur=lid20210415T143812
Ég tek þetta nær mér en margur vegna þess að einu sinni var
ég sterk kona. Eða það hélt ég. Nú er ég bara kona. Það er viðurstyggilegt að
verða fyrir einelti komin á fullorðinsaldur.[1]
Og að verða fyrir því af hálfu opinberra aðila er skelfilegt og á ekki að
líðast.
Ráðuneyti og stofnanir eru ekki persónur. Þau eiga ekki að
taka gagnrýni persónulega. Fjölmiðlar eiga ekki að leyfa þeim að hafa uppi
slíka tilburði og ráðherra á ekki að taka upp hanskann fyrir ráðuneyti eða
stofnanir á þeim grunni.
Reiði samgönguráðherra í þessari umræðu fer ekki á milli
mála að á vísan í persónur innan undirstofnana hans. Þannig segir hann í
reiðikasti sínu:
„Ég vil minna á að hér eru þingmenn meira og minna að tala
um þingið og þ.a.l. þingmenn sjálfa og þeirra aðgang. Skýrslur
Ríkisendurskoðunar sérstaklega fjalla gjarnan um einhverja allt aðra heldur en
þingmenn og þeir aðilar fá engan aðgang að skýrslunni fyrr en hún er birt. Þeir
geta ekki tjáð sig. Og ég ætla að segja það að mér finnst sérkennilegt ef að ég
ætla að fara að tala við fjölmiðla um einhverja hluti sem þeir hafa dregið út
úr skýrslu sem þeir hafa einhvern veginn komist yfir héðan frá þinginu en ég
hef ekki fengið að sjá og get þ.a.l. ekki tjáð mig. Hvað þá stofnun eins og
Samgöngustofa sem mest er fjallað um eða jafnvel einhverjir einstaklingar út í
bæ. Þannig að þetta er grafalvarlegt mál að einstakir þingmenn fari út og tali
um eitthvað sem þeir hafa fengið aðgang að en engir aðrir hafa fengið aðgang
að.“
Það er ekkert hægt að fara í grafgötur með að vorkunn
samgönguráðherra hér er öll með undirstofnun hans Samgöngustofu. Ekki er að
heyra að hann hafi nokkrar einustu áhyggjur af almenningi sem þessi sama
undirstofnun hans átti að hafa umsjón með að yrði ekki fyrir tjóni.
Í þessu máli fær maður að sjá með berum augum ósiði sem
grassera innan íslenska kerfisins og er þarft að gera athugasemd við. Það þarf að kenna
opinberum starfsmönnum það að þegar þeir starfa innan ráðuneyta og/stofnana eru
þeir nafnlausir starfsmenn. Þeir eru þjónar þeirrar stofnunar og/eða ráðuneytis
sem þeir starfa hjá og þeir eiga og þurfa að geta tekið allri þeirri gagnrýni sem
þeir fá á störf sín og gjörðir.
Að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands á árinu 2021 láti sig enn
hafa það í umræðu á löggjafarþingi að fara í vörn fyrir stofnanir sínar og
ráðuneyti á grundvelli þess að verið sé að ráðast að „persónum“ á ekki að
líðast. Það má ekki bara gagnrýna ráðuneyti og stofnanir. Það á að gera það.
Ráðuneyti og stofnanir eiga að þjóna almenningi og engum
öðrum. Þeir sem þar starfa verða að geta tekið því að ég eða þú, þingmenn eða
hverjir sem er aðrir gagnrýni þau. Gagnrýnin getur verið málefnaleg og hún
getur líka verið ómálaefnaleg. Auðvitað gerum við kröfu um að gagnrýni
þingmanna sé málefnaleg en starfsmaður hins opinbera getur engar kröfur gert
til þess að hún sé með einhverjum tilteknum hætti. Hann getur bara gert þá
kröfu til sjálfs síns að hann fari að lögum og reglum og gæti meðalhófs og
mannúðar í hvívetna í störfum sínum. Hann stendur og fellur með því sem hann
gerir. Og hann gerir það nafnlaust.
[1] Einelti
er alltaf viðurstyggilegt. Auðvitað viðurstyggilegast alls gagnvart börnum. Sú
er hér ritar hefur ekki orðið fyrir því nema sem fullorðin manneskja og tekur
því svona til orða.