„Mannlegt líf í sameiningu verður
þá fyrst mögulegt, þegar saman er kominn meirihluti, sem er sterkari en nokkur
einn einstaklingur og sem stendur saman gegn öllum einstaklingum. Vald þessa
samfélags er þá sett fram sem „réttur“ andstætt valdi einstaklingsins, sem er
fordæmt sem „hrátt ofbeldi“. Þessi flutningur á valdi einstaklings yfir á vald
samfélagsins er stór skref í átt til siðmenningar…“ „Fyrsta krafa siðmenningar
er því krafan um réttlæti, þ.e.a.s. trygging fyrir því að lög, sem sett hafa
verið, verði ekki brotin í þágu einhvers einstaklings.“
Freud, S. (1997). Undir oki
siðmenningar. (Sigurjón Björnsson, Þýð.) Reykjavík: Hið íslenzka
bókmenntafélag. (Bls. 39)
„Fyrsta krafa siðmenningar er því krafan um réttlæti,
þ.e.a.s. trygging fyrir því að lög, sem sett hafa verið, verði ekki brotin í
þágu einhvers einstaklings.“
Merkilegt. Siðmenning, réttlæti talið tryggt með því að lög
verði ekki brotin í þágu einstaklings. „Allir skulu jafnir fyrir lögunum.“ Er
það ekki þannig sem það á að virka? Er það ekki grundvöllur góðrar löggjafar?
Ég sá ástæðu til að leita þessi orð uppi í ljósi upphlaups á
samfélagsmiðlum þessa dagana. Enn einu sinni er hrópað á stjórnvöld og þess krafist
að þau beiti sér í þágu einstaklings. Forystumenn stjórnvalda, helst konur, eru
sagðar illgjarnar, vondar manneskjur og fleira í sama dúr. Hvers vegna? Vegna
þess að þær vilja ekki beita sér í þágu einnar fjölskyldu sem fjöldinn heimtar
að þær beiti sér fyrir.
Ég skil þetta ekki. Ég skil ekki hvers konar samfélag það er
sem fólk heimtar. Ég skil ekki hvernig á að vera hægt að lifa í slíku
samfélagi. Þar sem engar almennar reglur ríkja. Þar sem stjórnvöld hlaupa
alltaf til og gera ráðstafanir í þágu þeirra sem hrópa hæst.
Tek það fram að ég hef ímugust á ofstæki íslenskrar
stjórnsýslu. Hef tjáð mig um það ótal sinnum að fátt tel ég brýnna en að gera
mannúð og meðalhóf að forgangsatriði íslenskrar stjórnsýslu í öllum sínum
störfum. Kerfislægt ofbeldi er skelfilegt og við eigum ekki að leyfa því að
líðast. Ekki í Útlendingastofnun né Vinnumálastofnun, Tryggingastofnun,
Tollstjóra eða Lánasjóði íslenskra námsmanna.
Það getur meira en verið - og mér þykir það alls ekki
ólíklegt - að egypska fjölskyldan eigi að fá að vera á Íslandi. En hvernig á ég
að geta vitað það? Hvernig get ég haft það á hreinu að nákvæmlega þessi
fjölskylda umfram aðrar sem hafa komið hingað í sömu erindagjörðum eigi að fá
að vera? Hvers konar stjórnarfar erum við að kalla yfir okkur með því að heimta
að þessi fjölskylda fái að vera hér umfram aðrar?
Eiga stjórnvöld að taka fram fyrir hendur kerfisins í hverju
því máli sem við krefumst þess að þau geri það? Hvað með önnur mál sama eðlis?
Hvers konar stjórnarfar viljum við?
Er það gamli góði geðþóttinn sem hér á að vera við völd?
Hvers konar samfélag verður það?