sunnudagur, 27. mars 2016

Rúsínan í pylsuendanum...

Borgarstjórinn sem síðar varð forsætisráðherra í 13 ár, utanríkisráðherra í 1 ár og seðlabankastjóri í 4 ár varð í kjölfar hrunsins ritstjóri Morgunblaðsins. Reyndist jarðvegur í samfélaginu til að leyfa honum það.

Konan sem var í forsvari Kvennalistans, var borgarstjóri í 9 ár og utanríkisráðherra í 1 ár fór úr landi í kjölfar hrunsins. Nýtur viðurkenningar þar í stjórnunarstöðu alþjóðasamtaka við að hjálpa konum að virkja samtakamátt sinn. Hún var sett út af sakramentinu á Íslandi og enn heyrist talað niður til hennar af mörgum.

Kvennalistinn sem leiddi til þess að við höfum séð fleiri konur á Alþingi og fjölda kvenna verða ráðherra rann inn í hreyfingu sem var ætlað að skipta sköpum. Loksins varð til sameinuð hreyfing jafnaðarmanna á Íslandi þar sem konur og karlar voru í forystu.

Árið 2009 í fordæmalausum aðstæðum þar sem Sjálfstæðisflokkurinn var í stjórnarandstöðu í fyrsta skipti í 18 ár varð kona forsætisráðherra og ríkisstjórn var skipuð jafn mörgum konum og körlum í fyrsta skipti á Íslandi.

Borgarstjórinn fyrrverandi, síðar forsætisráðherra, utanríkisráðherra, seðlabankastjóri og nú Morgunblaðsritstjóri hefur haft megnan ímugust á þessari hreyfingu frá upphafi. Talað til hennar með háði sem honum einum er lagið og stöðugt hoggið í sama knérunn. Margir hafa orðið til þess að taka undir með honum. Enda um að ræða stórhættulegt afl. Afl sem hefur breytt ásýnd stjórnmálanna svo um munar. Konur hafa verið þar alvöru afl frá upphafi og eru enn.

Hugmyndafræði borgarstjórans fyrrverandi reyndist betri en engin og fjöldinn trúir því nú að hann hafi haft rétt fyrir sér. Þrátt fyrir að enginn kannist við það nú fremur en endranær að hlusta á hann.

Þannig sjást ritstjórar dagblaða sem tala um „fjórflokkinn“ sem vel skilgreint hugtak eyða löngu máli í að tala um að enginn hlusti lengur á þennan mann. Samt gera þeir það augljóslega. Þeir setja með tali um „fjórflokkinn“ hreyfinguna sem stofnuð var árið 2000 og innihélt m.a. Kvennalistann undir sama hatt og Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkinn sem hafa verið við stjórn svo lengi sem menn muna.

Samfylkingin, þessi nýja hreyfing, sem borgarstjóranum, forsætisráðherranum, seðlabankastjóranum, nú Morgunblaðsritstjóranum hefur alltaf verið svo illa við, hefur einungis tvisvar sinnum komist í ríkisstjórn. Bæði skiptin á fordæmalausum tímum. Annars vegar árið 2007 og hins vegar árið 2009.

Fjöldinn – almenningur á Íslandi nema einstaka sérvitringar eins og sú sem hér ritar - hefur snúið baki við þessari hreyfingu alveg eins og borgarstjórinn fyrrverandi vildi. Fjöldinn hefur tekið upp þetta snilldarhugtak „fjórflokkinn“ og lætur eins og það sé í sína þágu að gera það. Ætlun hans er að kjósa Pírata til valda næst. Hvað sú hreyfing stendur fyrir verður að koma í ljós en altént er skýrt að jafnréttismál eru ekki í forgrunni á þeim bænum.

Foringinn eini sanni fagnar sigri sem endranær. Hans hugmyndir eru sannleikurinn.

Gleðilega páska!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...