sunnudagur, 27. mars 2016

Rúsínan í pylsuendanum...

Borgarstjórinn sem síðar varð forsætisráðherra í 13 ár, utanríkisráðherra í 1 ár og seðlabankastjóri í 4 ár varð í kjölfar hrunsins ritstjóri Morgunblaðsins. Reyndist jarðvegur í samfélaginu til að leyfa honum það.

Konan sem var í forsvari Kvennalistans, var borgarstjóri í 9 ár og utanríkisráðherra í 1 ár fór úr landi í kjölfar hrunsins. Nýtur viðurkenningar þar í stjórnunarstöðu alþjóðasamtaka við að hjálpa konum að virkja samtakamátt sinn. Hún var sett út af sakramentinu á Íslandi og enn heyrist talað niður til hennar af mörgum.

Kvennalistinn sem leiddi til þess að við höfum séð fleiri konur á Alþingi og fjölda kvenna verða ráðherra rann inn í hreyfingu sem var ætlað að skipta sköpum. Loksins varð til sameinuð hreyfing jafnaðarmanna á Íslandi þar sem konur og karlar voru í forystu.

Árið 2009 í fordæmalausum aðstæðum þar sem Sjálfstæðisflokkurinn var í stjórnarandstöðu í fyrsta skipti í 18 ár varð kona forsætisráðherra og ríkisstjórn var skipuð jafn mörgum konum og körlum í fyrsta skipti á Íslandi.

Borgarstjórinn fyrrverandi, síðar forsætisráðherra, utanríkisráðherra, seðlabankastjóri og nú Morgunblaðsritstjóri hefur haft megnan ímugust á þessari hreyfingu frá upphafi. Talað til hennar með háði sem honum einum er lagið og stöðugt hoggið í sama knérunn. Margir hafa orðið til þess að taka undir með honum. Enda um að ræða stórhættulegt afl. Afl sem hefur breytt ásýnd stjórnmálanna svo um munar. Konur hafa verið þar alvöru afl frá upphafi og eru enn.

Hugmyndafræði borgarstjórans fyrrverandi reyndist betri en engin og fjöldinn trúir því nú að hann hafi haft rétt fyrir sér. Þrátt fyrir að enginn kannist við það nú fremur en endranær að hlusta á hann.

Þannig sjást ritstjórar dagblaða sem tala um „fjórflokkinn“ sem vel skilgreint hugtak eyða löngu máli í að tala um að enginn hlusti lengur á þennan mann. Samt gera þeir það augljóslega. Þeir setja með tali um „fjórflokkinn“ hreyfinguna sem stofnuð var árið 2000 og innihélt m.a. Kvennalistann undir sama hatt og Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkinn sem hafa verið við stjórn svo lengi sem menn muna.

Samfylkingin, þessi nýja hreyfing, sem borgarstjóranum, forsætisráðherranum, seðlabankastjóranum, nú Morgunblaðsritstjóranum hefur alltaf verið svo illa við, hefur einungis tvisvar sinnum komist í ríkisstjórn. Bæði skiptin á fordæmalausum tímum. Annars vegar árið 2007 og hins vegar árið 2009.

Fjöldinn – almenningur á Íslandi nema einstaka sérvitringar eins og sú sem hér ritar - hefur snúið baki við þessari hreyfingu alveg eins og borgarstjórinn fyrrverandi vildi. Fjöldinn hefur tekið upp þetta snilldarhugtak „fjórflokkinn“ og lætur eins og það sé í sína þágu að gera það. Ætlun hans er að kjósa Pírata til valda næst. Hvað sú hreyfing stendur fyrir verður að koma í ljós en altént er skýrt að jafnréttismál eru ekki í forgrunni á þeim bænum.

Foringinn eini sanni fagnar sigri sem endranær. Hans hugmyndir eru sannleikurinn.

Gleðilega páska!

mánudagur, 7. mars 2016

Frjálshyggjuvélin





Kvikmyndin Gasland sækir á mig - hugsun um samfélagið sem hún lýsir lætur mig ekki í friði. Þetta er heimildamynd - lýsir raunveruleikanum. Áhrifum peningaaflanna á strjálbýl svæði í Bandaríkjunum síðustu 15 ár.

Finn mikil líkindi með samfélaginu sem ég lifi í og samfélagi þessara fjölskyldna sem Josh Fox heimsækir. Samfélag þar sem viðsnúningur hefur orðið á daglegu lífi íbúanna. Samfélag í vanda þar sem fullkomið vantraust er komið í stað trausts. Hræðsla, mútur, sekt, yfirhylming, þöggun, allt þetta skynjar maður yfir og allt um kring.

Yfirvöld eru ekki til staðar fyrir íbúanna heldur fyrir fjármálaöflin. Fjármagnið ræður för. Græðgin við stjórnvölinn í sinni tærustu mynd.

Ísland er að mörgu leyti í sömu stöðu. Samfélag fullkomins vantrausts þar sem viðsnúningur hefur orðið á daglegu lífi okkar allra. Við viðurkennum það þó ekki, höldum bara áfram að hlaupa eins og Njála sýnir svo skýrt.

Aldrei orðið eins vel ljóst og nú að ég vil ekki búa í samfélagi þar sem frjálshyggjuvélin er við stjórnvölinn. Vil brjóta niður þessa frjálshyggjuvél og koma okkur aftur á þann stað þar sem við vissum hvað var rétt og hvað var rangt. Stað þar sem stjórnendur fyrirtækjanna vissu það líka.

Frjálshyggjuvélin gjöreyðir auðlindum og er andskotans sama. Auðlindin mannauður fellur þar undir.
Frjálshyggjuvélin lætur sér í léttu rúmu liggja þó að mannauðurinn brenni út, verði að öryrkjum nú eða deyji af völdum hennar. 

Frjálshyggjuvélin hugsar um það eitt að búa til skilvirka krana fyrir fjármagnið í vasa eigendanna.
Frjálshyggjuvélin nennir ekki lengur að stjórna neinu. Nennir ekki að eiga mannleg samskipti við fólk heldur stjórnar með yfirboðum að ofan og niður.

Frjálshyggjuvélin sem heldur að skattar séu til til viðhalds hennar sjálfrar. Meira að segja sjóðir verkalýðsins eru hluti af þessari frjálshyggjuvél. Ótrúlega klókt fyrirkomulag að láta einstaklingana greiða skatta allt sitt líf en svo þurfa þeir líka að greiða þjónustuna sem þeir þurfa á að halda af hendi kerfisins. Ef þeim dettur það í hug að nota sína eigin sjóði til að styrkja sig í þeirri viðleitni að lifa af þá lækkar það sem frjálshyggjuvélin þarf að greiða út til þessara einstaklinga. Meira verður til fyrir stjórnendurna sem eru áskrifendur að árslaunum hins venjulega manns á tveimur mánuðum. 

Frjálshyggjuvélin mælir allt. Hún telur tölvupósta og mælir árangur út frá fjölda verka. Gæði skipta ekki máli enda vélin ekkert í því að búa til gæði.
Hún er í því að búa til krana fyrir peninga í vasa eigenda.
Eyðing þess sem er er í fínu lagi hjá þessari vél.
Græðgi og fíkn í meira er hennar drifkraftur.

Frederick Winslow Taylor hefði aldeilis orðið ánægður með jarðarbúa hefði hann heimsótt okkur núna, í það minnsta Bandaríkjamenn og Íslendinga. Annað samfélagið telur 330. þúsund manns, hitt 320 milljónir manns. "One best way" eða töfralausn er kjörorðið.

Ég held að það sé forgangsmál að skipta um kúrs.

Við viljum njóta þess að lifa.
Til þess þurfum við að skipta um kúrs.
Vélin eins og hún er hefur ekki til að bera neinn kærleika.

Donald Trump er fulltrúi þessarar vélar í hnotskurn.
Ef hann næði kjöri væri alveg búið að eyða mörkunum á milli viðskiptalífsins og stjórnmálanna.
Það sama gæti gerst hér.






Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...