Í Kastljósi kvöldsins kastaði Sigmar fram við viðmælanda sinn þeirri setningu “þú vilt sem sagt að fjölmiðlar endurspegli þann veruleika sem þér þóknast, ekki að fjölmiðlar endurspegli samfélagið eins og það er?” Merkingin var þessi hvort sem setningin er orðrétt eftir höfð eða ekki. Umræðuefni þáttarins var fyrirhuguð lýtameðferð á Ruth Reginalds á Stöð 2.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég heyri þetta viðhorf frá fjölmiðlamönnum. Ég held stundum að þeir lifi í allt öðrum heimi heldur en ég a.m.k. ef þeir halda að þeir séu alltaf að “endurspegla samfélagið eins og það er”. Hvað finnst ykkur? Hafa fjölmiðlar ekkert vald í samfélaginu? Hafa fjölmiðlar engin áhrif á samfélagið? Er sú mynd sem dregin er upp af samfélaginu í fjölmiðlum að sýna samfélagið “eins og það er”?
Hvernig er samfélagið? Um hvað fjalla fjölmiðlar? Að mínu mati ákaflega áhugaverðar spurningar sem svo sannarlega er þörf á að velta út í umræðuna.
Það er ótrúlegur barnaskapur að mínu mati eiginlega nánast heimska að láta sem svo að fjölmiðlar hafi engin áhrif á samfélagið – þvílík firra! Dettur einhverjum okkar í hug að það vægi sem viðskiptalífið fær í fjölmiðlum hafi engin áhrif á okkur eða börnin okkar? Dettur einhverjum okkar í hug að sú svart-hvíta staðalímynd sem sýnd er í hverjum þættinum á fætur öðrum á Skjá einum og fyrst og fremst er ætlað að höfða til unglinga hafi engin áhrif? Dettur einhverjum okkar í hug að sífellt sýnilegra ofbeldi í fjölmiðlum hafi engin áhrif? Dettur einhverjum okkar í hug að fréttamat þar sem hvítir karlar í jakkafötum eru alltaf í aðalhlutverki hafi engin áhrif?
Svari hver fyrir sig – í mínum huga er svarið alveg skýrt. Auðvitað hafa fjölmiðlar áhrif. Auðvitað hafa fjölmiðlar vald. Fjölmiðlar endurspegla ekki samfélagið, þeir móta samfélagið. Þess vegna er svo mikilvægt að vandað sé til verka á fjölmiðlum. Þess vegna skiptir það okkur öll sem búum í samfélaginu svo miklu máli hvernig fjölmiðlarnir eru. Hvaða áherslur þeir viðhafa, hvaða siðferðileg gildi þeir hafa og hvaða málefnum þeir sinna.
Í mannlegu samfélagi er ákaflega lítið nýtt undir sólinni. Maðurinn hefur alltaf verið gráðugur, hann hefur alltaf verið hégómagjarn og hann hefur alltaf verið svikull. Ef við trúum því að “fjölmiðlar endurspegli bara samfélagið eins og það er” lifum við væntanlega í þeirri trú að Clinton sé fyrsti maðurinn sem hefur haldið framhjá. Við trúum því að maðurinn hafi fyrst og fremst áhuga á peningum. Við trúum því að maður sem lítur líkamlega vel út “er í formi” sé maður sem hefur sérstaklega mikla stjórn á lífi sínu – er heilbrigður og líður vel. Við trúum því að líkami kvenna sé fyrst og fremst markaðsvara. Við trúum því að hvítir karlmenn séu vitsmunarver…urnar. Þetta er sú mynd sem fjölmiðlarnir sýna okkur. Það skal ítrekað að hér er ekki einungis átt við fréttir og fréttatengt efni heldur allt efni fjölmiðla. Er samfélagið svona? Er Clinton fyrsti maðurinn til að halda framhjá? Eru peningar það sem maður á dánarbeði hefur fyrst og fremst áhyggjur af? Eru fyrirsætur af hvoru kyni sem þær eru með líkamann í “góðu formi” besta dæmið um heilbrigðar sálir? Er kvenlíkaminn fyrst og fremst söluvara? Er allt gáfulegt og rétt sem hvítir karlmenn segja og gera?
Ég held ekki, hvað heldur þú?
Auðvitað gefa fjölmiðlar tóninn. Auðvitað móta fjölmiðlar umræðuna. Fyrirhugaður þáttur á Stöð tvö um allsherjar lýtameðferð á Ruth Reginlands sendir skilaboð. Eins og 14 ára gömul dóttir mín sagði í kvöld; “hann gefur þau skilaboð að það sé ekki í lagi að eldast”. Það er ekkert nýtt við þau skilaboð. Síðast í dag sat ég í hádeginu og spjallaði við fyrrum samstarfskonu mína. Hún rifjaði upp fyrir mér þegar hún sat fund með framkvæmdastjóranum á viðkomandi vinnustað eftir að hafa hlustað á heilan fyrirlestur um hversu frábært það væri að vinnustaðurinn hefði “young look”! Hún var komin yfir fimmtugt! Hvernig átti hún að taka þessum skilaboðum? Hún tók þeim auðvitað nákvæmlega eins og þau voru borin á borð. Hún var óæskileg á vinnustaðnum. Hún var ekki í liðinu – hún var “old”!
Mannskepnan hefur alltaf haft áhuga á frumhvötum sínum og hún hefur alltaf haft áhuga á kjaftasögum og lágkúru, það hefur ekkert breyst í gegnum aldirnar. Ef þið eruð ekki viss lesið Svartfugl eftir Gunnar Gunnarsson og skoðið samfélagið í sögunni sérstaklega.
Fjölmiðlar
dagsins í dag eiga val á hverjum degi, hverja klukkustund, hverja mínútu. Val þeirra mótar samfélag okkar hvern dag,
hverja klukkustund, hverja mínútu. Ef
þeir velja þröngsýnt sjónarhorn og leggja áherslu á að höfða til frumhvata
mannsins, þá verður samfélagið okkar þröngsýnt og við fyllumst trú á að
frumhvatir okkar séu það sem lífið snýst um.
Ef fjölmiðlarnir kjósa að vera víðsýnir og sýna fjölbreytni þá verður
samfélagið okkar víðsýnt og fjölbreytt.
Fjölmiðlarnir
endurspegla ekki mitt sjónarhorn – hvað með þitt?
Birt á www.kreml.is 13.02.2004
Engin ummæli:
Skrifa ummæli