Höfundur þessa bloggs er alin upp á Melum í Hrútafirði og hefur haft ólæknandi áhuga á samfélaginu frá barnsaldri. Byrjaði að skrifa greinar og fékk birtar á vefnum www.kreml.is á árunum 2003 – 2004 eða þar til honum var lokað. Hef síðan af og til fengið birtar greinar í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Skrifaði blogg þegar þegar efnahagshrunið dundi yfir og var mjög virk á árinu 2009. Tek hér saman allar mínar greinar og vonast til að hér megi þær liggja.
þriðjudagur, 14. desember 2004
fimmtudagur, 16. september 2004
föstudagur, 27. ágúst 2004
mánudagur, 19. júlí 2004
laugardagur, 10. júlí 2004
Skapar árangur óvinsældir?
Ég hef starfað í íslensku viðskiptalífi í tuttugu ár og það er óhætt að segja að á því hafi orðið ótrúlegar breytingar á þessum tíma. Þegar ég hóf atvinnuleit fyrir tuttugu árum talaði ég við starfsmannastjóra Sambandsins annars vegar og Flugleiða hins vegar. Þetta voru "blokkirnar" í viðskiptalífinu á þeim tíma og einhvern veginn virtist sjálfsagt að bera niður þar. Ég endaði Flugleiðamegin og hef lengst af starfað "þeim megin" ef hægt er að orða það svo og það þrátt fyrir að vera af Framsóknarkyni!
Á milli þessara tveggja blokka ríkti "kalt stríð" og menn skipuðu sér mjög skýrt í fylkingar "með" eða "á móti" viðkomandi fyrirtækjablokkum. Framsóknarmenn skipuðu sér í lið með samvinnufyrirtækjunum, Sjálfstæðismenn með hinum. Óvildin á milli þessara tveggja fylkinga var algjör og kristallaðist kannski einna best í viðskiptavinum Eimskips annars vegar og Samskips hins vegar. Ég man t.d. eftir einni manneskju sem enn starfar hjá Eimskipafélaginu - flutti sig þangað frá Samskip. Hún sagði mér eitt sinn að fyrrum samstarfsfélagar hennar heilsuðu henni vart á götu slík var óvildin. Hún hafði "svikið" málstaðinn með því að flytja sig yfir til erkióvinarins! Ég var líka nemandi í "Samvinnu"háskólanum á Bifröst þegar nafninu var breytt í "Viðskipta"háskólann á Bifröst. Rökin fyrir þeirri nafnabreytingu voru fyrst og fremst þau að skólinn þurfti að losa sig við fjötra samvinnunafnsins. Til að eiga möguleika á stuðningi fyrirtækja á breiðum grunni gat skólinn ekki haldið sínu gamla nafni. Þegar farið er ofan í sögu tuttugustu aldar þarf þetta ekkert að koma á óvart. Hatrið var þvílíkt á milli þessara aðila að það verður ekki útmáð nema með kynslóðunum.
Fyrirtækin sem rekin voru hvort undir sínum "fána" ef svo má segja horfðu ekki fyrst og fremst á neytendur sína. Neytendur þeirra voru margir hverjir neytendur þeirra eftir því hvar þeir skipuðu sér í pólitík, ekki vegna þess að þeir fengju ódýrari eða betri vöru hjá fyrirtækinu sem þeir versluðu við. Þannig keypti föðurbróðir minn og fjölskylda hans alltaf bensín hjá ESSO, annað kom ekki til greina.
Það er óhjákvæmilegt að í slíku umhverfi verði til pláss fyrir nýja aðila að koma inn enda kom það á daginn sem betur fer fyrir okkur öll sem köllum okkur neytendur í þessu landi. Þegar BÓNUS varð til er ekki orðum aukið að orðið hafi bylting á matvörumarkaði hér á landi. Þeir feðgar Jóhannes og Jón Ásgeir eiga svo sannarlega skilið að fá rós í hnappagatið fyrir að ekki einungis breyta heldur umbylta umhverfi okkar neytenda hér með því að opna lágvöruverðsverslun sem leiddi af sér einhverja mestu kaupmáttaraukningu íslensks launafólks sem ég man eftir að hafi orðið á einu bretti frá því ég fæddist inn í þennan heim. Hvernig þeir fóru að þessu hef ég ekki hugmynd um. Það var áreiðanlega ekki auðvelt verk og fyrir löngu ljóst að þeir sköpuðu sér óvild margra með baráttu sinni en þeim tókst það og sú staðreynd hefur leitt af sér hreina byltingu fyrir okkur neytendur í þessu landi.
Þeir félagar létu ekki þar við sitja heldur stofnuðu Baug nokkrum árum síðar. Ég man ekki lengur tímasetningar en ég man svo sannarlega hvernig umhverfið var á þeim árum þegar Baugur var að byrja og þeim breytingum sem stofnun þessa fyrirtækis hefur leitt af sér. Baugur hefur að mínu viti algjörlega bylt því viðskiptaumhverfi sem önnur fyrirtæki í þessu landi búa við. Það þarf ekki að leita lengra en til flutningastarfseminnar. Eða hvað segja innflytjendur um það flutningaumhverfi sem var við lýði hér áður en Baugur kom til? Hvernig var verðlagning skipafélaganna á þeim tíma og hvernig er hún nú? Hverjir voru brautryðjendur að því að útrýma flokkunarkerfi skipafélaganna þar sem það skipti öllu máli hvað varan hét sem flutt var? Það væri gaman ef einhver háskólastúdentinn tæki sig nú til og gerði rannsókn á þessu atriði hjá völdum hópi fyrirtækja hér á landi. Það skyldi þó aldrei eiga eftir að koma í ljós að við tilkomu Baugs hafi orðið bylting á þessu sviði? Til hagsbóta fyrir önnur fyrirtæki á markaði og þá auðvitað ekki síst til okkar neytenda.
Ég horfði áðan á viðtal Egils Helgasonar við Jón Ásgeir Jóhannesson í Silfri Egils. Ég hjó þar sérstaklega eftir einni setningu Jóns Ásgeirs "ef að þeir stæðu sig ekki gagnvart neytendum byggju þeir einfaldlega til pláss fyrir aðra til að koma inn". Það er nefnilega heila málið - er það ekki? Ef þeir verða sofandi á verðinum og fara að haga verðlagningu sinni þannig að okkur neytendum líkar það ekki, þá verður til pláss fyrir aðra til að koma inn - er það ekki þannig sem markaðurinn virkar og á að virka? Aðhaldið er okkar neytenda - er það ekki?
Getur verið að það sama sé uppi á teningnum með fjölmiðlana? Getur verið að Morgunblaðið hafi ekki staðið sig sem skyldi og hafi þannig búið til pláss fyrir aðra til að koma inn? Gæti verið að það væri vænlegra fyrir þá á markaðnum að huga meira að neytendum sínum en minna að því að koma lögum yfir samkeppnisaðila sína? Getur verið að það sem eitt sinn dugði fyrir Morgunblaðið dugi ekki lengur? Getur verið að jafnvel þeirra stórveldi verði haggað ef þeir huga ekki að sér?
Allar götur frá því ég man eftir mér hefur Morgunblaðið borið höfuð og herðar önnur dagblöð hér á landi. Í þeirri stöðu hefur Morgunblaðið getað stýrt umræðunni enda hafa þeir um margt gert það. Við neytendur blaðsins höfum ekkert farið í grafgötur með það hver er pólitísk sýn stjórnenda blaðsins og stundum verður að segjast að það hefur farið skelfilega fyrir brjóstið á þeirri sem þetta ritar. En hún hefur þó eins og allir aðrir neytendur blaðsins orðið að sætta sig við það. Er nokkuð óeðliegt við það að í slíku umhverfi verði til pláss fyrir aðra til að koma inn? Og það sem meira er - er það ekki bara í góðu lagi og besta mál? Er ekki fyllsta ástæða til að í slíku umverfi verði til mótvægi. Við vitum öll sem lifum í þessu landi að við erum ekki öll pólitískt sammála ritstjórnum Morgunblaðsins og felst þá ekki tækifæri í því að sinna okkur? Og er nokkuð að því að það sé gert?
Ég verð að láta þess getið að lengri framan af þegar Fréttablaðið byrjaði að koma út fór það beint í ruslatunnuna á þessu heimili - ólesið. Ég er ákaflega íhaldssamur neytandi og hef til að mynda haft viðskipti við sama bankann í tuttugu ár! Ég hleyp ekki til þegar það koma fram nýjungar og gleypi við þeim - finnst betra að halda mig við það gamla og kveiki t.d. varla enn á Stöð II! Einmitt þess vegna hefur mér mestan part hugnast Morgunblaðið vel en allt á sér þó sín takmörk og það meira að segja þetta gamalgróna blað. Þessi sterki miðill á að hafa alla burði til að halda stöðu sinni á markaði - spurningin er einfaldlega hvort það hefur áhuga á því. Morgunblaðið verður að átta sig á þeirri staðreynd að nú er árið 2004. Sú staða sem þeir höfðu í þessu landi um áratugaskeið er ekki til staðar lengur. Það sem dugði einu sinni dugar ekki lengur. Þeir eru ekki lengur ráðandi afl í umræðunni og verða að sætta sig við þá staðreynd. Hún er eflaust sár fyrir þá en hún er gleðiefni fyrir okkur hin sem lengi höfum beðið eftir breytingum á þessu umhverfi.
Að síðustu - áskorun mín til Morgunblaðsmanna! Í Guðs bænum hættið að gráta svo mjög yfir samkeppninni - einbeitið ykkur miklu fremur að því að horfa á tækifærin sem eru til staðar. Þau eru mörg! Við erum áreiðanlega mörg neytendur hér úti sem þyrstir í nýjar áherslur í fjölmiðlum. Áherslur sem enginn miðill er að sinna í dag. Hvað með fréttaskýringar? Ólitaðar af flokkspólitík? Hvað með að fara dýpra ofan í umræðuna og hætta að horfa á umhverfið með flokkspólitískum gleraugum. Fréttablaðið er góðra gjalda vert svo langt sem það nær en það er ákaflega karllægur miðill og skilur eftir fullt af plássi!
Hefur Morgunblaðsmönnum til að mynda komið til hugar að spyrja lesendur sína hvernig þeim hugnast efnistök nýs tímarits? Væri ekki lag að koma fram með eitthvað nýtt í stað þess að koma með enn eitt "dægurblaðið"? Hvar eru markaðsfræðingarnir?
þriðjudagur, 8. júní 2004
þriðjudagur, 18. maí 2004
föstudagur, 30. apríl 2004
föstudagur, 23. apríl 2004
mánudagur, 29. mars 2004
föstudagur, 13. febrúar 2004
Speglun samfélagsins eða mótun?
Í Kastljósi kvöldsins kastaði Sigmar fram við viðmælanda sinn þeirri setningu “þú vilt sem sagt að fjölmiðlar endurspegli þann veruleika sem þér þóknast, ekki að fjölmiðlar endurspegli samfélagið eins og það er?” Merkingin var þessi hvort sem setningin er orðrétt eftir höfð eða ekki. Umræðuefni þáttarins var fyrirhuguð lýtameðferð á Ruth Reginalds á Stöð 2.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég heyri þetta viðhorf frá fjölmiðlamönnum. Ég held stundum að þeir lifi í allt öðrum heimi heldur en ég a.m.k. ef þeir halda að þeir séu alltaf að “endurspegla samfélagið eins og það er”. Hvað finnst ykkur? Hafa fjölmiðlar ekkert vald í samfélaginu? Hafa fjölmiðlar engin áhrif á samfélagið? Er sú mynd sem dregin er upp af samfélaginu í fjölmiðlum að sýna samfélagið “eins og það er”?
Hvernig er samfélagið? Um hvað fjalla fjölmiðlar? Að mínu mati ákaflega áhugaverðar spurningar sem svo sannarlega er þörf á að velta út í umræðuna.
Það er ótrúlegur barnaskapur að mínu mati eiginlega nánast heimska að láta sem svo að fjölmiðlar hafi engin áhrif á samfélagið – þvílík firra! Dettur einhverjum okkar í hug að það vægi sem viðskiptalífið fær í fjölmiðlum hafi engin áhrif á okkur eða börnin okkar? Dettur einhverjum okkar í hug að sú svart-hvíta staðalímynd sem sýnd er í hverjum þættinum á fætur öðrum á Skjá einum og fyrst og fremst er ætlað að höfða til unglinga hafi engin áhrif? Dettur einhverjum okkar í hug að sífellt sýnilegra ofbeldi í fjölmiðlum hafi engin áhrif? Dettur einhverjum okkar í hug að fréttamat þar sem hvítir karlar í jakkafötum eru alltaf í aðalhlutverki hafi engin áhrif?
Svari hver fyrir sig – í mínum huga er svarið alveg skýrt. Auðvitað hafa fjölmiðlar áhrif. Auðvitað hafa fjölmiðlar vald. Fjölmiðlar endurspegla ekki samfélagið, þeir móta samfélagið. Þess vegna er svo mikilvægt að vandað sé til verka á fjölmiðlum. Þess vegna skiptir það okkur öll sem búum í samfélaginu svo miklu máli hvernig fjölmiðlarnir eru. Hvaða áherslur þeir viðhafa, hvaða siðferðileg gildi þeir hafa og hvaða málefnum þeir sinna.
Í mannlegu samfélagi er ákaflega lítið nýtt undir sólinni. Maðurinn hefur alltaf verið gráðugur, hann hefur alltaf verið hégómagjarn og hann hefur alltaf verið svikull. Ef við trúum því að “fjölmiðlar endurspegli bara samfélagið eins og það er” lifum við væntanlega í þeirri trú að Clinton sé fyrsti maðurinn sem hefur haldið framhjá. Við trúum því að maðurinn hafi fyrst og fremst áhuga á peningum. Við trúum því að maður sem lítur líkamlega vel út “er í formi” sé maður sem hefur sérstaklega mikla stjórn á lífi sínu – er heilbrigður og líður vel. Við trúum því að líkami kvenna sé fyrst og fremst markaðsvara. Við trúum því að hvítir karlmenn séu vitsmunarver…urnar. Þetta er sú mynd sem fjölmiðlarnir sýna okkur. Það skal ítrekað að hér er ekki einungis átt við fréttir og fréttatengt efni heldur allt efni fjölmiðla. Er samfélagið svona? Er Clinton fyrsti maðurinn til að halda framhjá? Eru peningar það sem maður á dánarbeði hefur fyrst og fremst áhyggjur af? Eru fyrirsætur af hvoru kyni sem þær eru með líkamann í “góðu formi” besta dæmið um heilbrigðar sálir? Er kvenlíkaminn fyrst og fremst söluvara? Er allt gáfulegt og rétt sem hvítir karlmenn segja og gera?
Ég held ekki, hvað heldur þú?
Auðvitað gefa fjölmiðlar tóninn. Auðvitað móta fjölmiðlar umræðuna. Fyrirhugaður þáttur á Stöð tvö um allsherjar lýtameðferð á Ruth Reginlands sendir skilaboð. Eins og 14 ára gömul dóttir mín sagði í kvöld; “hann gefur þau skilaboð að það sé ekki í lagi að eldast”. Það er ekkert nýtt við þau skilaboð. Síðast í dag sat ég í hádeginu og spjallaði við fyrrum samstarfskonu mína. Hún rifjaði upp fyrir mér þegar hún sat fund með framkvæmdastjóranum á viðkomandi vinnustað eftir að hafa hlustað á heilan fyrirlestur um hversu frábært það væri að vinnustaðurinn hefði “young look”! Hún var komin yfir fimmtugt! Hvernig átti hún að taka þessum skilaboðum? Hún tók þeim auðvitað nákvæmlega eins og þau voru borin á borð. Hún var óæskileg á vinnustaðnum. Hún var ekki í liðinu – hún var “old”!
Mannskepnan hefur alltaf haft áhuga á frumhvötum sínum og hún hefur alltaf haft áhuga á kjaftasögum og lágkúru, það hefur ekkert breyst í gegnum aldirnar. Ef þið eruð ekki viss lesið Svartfugl eftir Gunnar Gunnarsson og skoðið samfélagið í sögunni sérstaklega.
Fjölmiðlar
dagsins í dag eiga val á hverjum degi, hverja klukkustund, hverja mínútu. Val þeirra mótar samfélag okkar hvern dag,
hverja klukkustund, hverja mínútu. Ef
þeir velja þröngsýnt sjónarhorn og leggja áherslu á að höfða til frumhvata
mannsins, þá verður samfélagið okkar þröngsýnt og við fyllumst trú á að
frumhvatir okkar séu það sem lífið snýst um.
Ef fjölmiðlarnir kjósa að vera víðsýnir og sýna fjölbreytni þá verður
samfélagið okkar víðsýnt og fjölbreytt.
Fjölmiðlarnir
endurspegla ekki mitt sjónarhorn – hvað með þitt?
Birt á www.kreml.is 13.02.2004
Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Eitt af því sem maður þarf að meðtaka verandi kona er að allt sem þykir „kvenlegt“ er ómerkilegt. Nýtur ekki sjálfgefinnar virðingar eins og...
-
Málflutningur leikskólakennara og stjóra í þá veru að senda konum skömmina af því að vilja vinna fullan vinnudag hefur náð svo miklum árangr...








