Ég ætla að leyfa mér að vera ósammála félaga ritstjóra vors sem bað um meiri skrif um háskólasamfélagið hér á vefnum. Á meðan ég nýt þeirra forréttinda að fá að skrifa um það sem mér sýnist ætla ég að forðast það eins og heitan eldinn að minnast á Bifröst og samfélagið hér – hvers vegna? Vegna þess að ég er þess fullviss að það er nákvæmlega það sem þetta samfélag þarf á að halda, það er það sem öll samfélög þurfa á að halda, lítil og smá. Við þörfnumst ekki sjálfhverfu og þröngsýni, við þörfnumst mest af öllu víðsýni – að hugsa lengra en nef okkar nær. Við þörfnumst þroska, við þörfnumst þess að horfa á hlutina í samhengi, við þörfnumst heimspeki, hugsjóna – annarra heldur en þeirra að græða sem mesta peninga í dag! Við þörfnumst upphafningar á “andlegum þroska” fyrst og fremst. Sá þroski mun aldrei nást ef umræðan kemst aldrei á hærra plan en lesa má um í “Séð og heyrt”.
Ég hef satt að segja haft áhyggjur af þessu málefni lengi, ég skelfist þá hugsun ungs fólks í dag að því komi ekkert við annað en það sjálft. Því komi ekkert við hvað gerðist í fortíðinni eða hvað er að gerast annars staðar í samtíðinni, eða hvað framtíðin ber í skauti sér. Það er stundum eins og það eina sem það kæri sig um að hugsa um sé það sjálft. Ég hef oft velt þessu umræðuefni upp og er þá oft afgreidd sem “gömul nöldurskjóða”. Ungt fólk hafi alltaf verið upptekið af sjálfu sér og þannig muni það alltaf vera. Vissulega er mikið til í því en ég er samt sannfærð um að sjaldan hafi ungt fólk verið jafn “sjálfhverft” og það er í dag. Hvar eru hugsjónir þess og hverjar eru þær?
Ég skelfist þá hugsun ungra kvenna að jafnréttismál séu “hallærisleg” málefni sem þær þurfi ekki að hafa áhyggjur af. Þær halda margar hverjar að þær eigi heiminn og þurfi ekki að taka tillit til eins eða neins. Guð hjálpi þeim þegar þær fara að reka sig á, að þetta sem þær héldu að væri svo einfalt reynist svo kannski ekki svo einfalt.
Ég skelfist þröngsýni ungra karlmanna sem eru sannfærðir um að þeirra sé sannleikurinn! Ég skelfist líka samfélag sem ýtir undir þessa skoðun þeirra!
Ég skelfist þá einu hugsjón sem upprennandi kynslóð virðist hafa – “peninga”!
Ég vona að ég kalli yfir mig stríð með skrifum sem þessum því mér þykir vænt um ungt fólk – sem og annað fólk! Það er einmitt kjarni málsins. Mig langar til að færa umræðuna yfir á annað plan. Ég hef ekki áhuga á kjaftasögum eða “lágkúru” mannsins. Ég hef miklu meiri áhuga á getu hans til að hugsa og segja það sem í honum býr.
Mér verður oft hugsað til bóka Steingríms Hermannssonar þar sem rekur m.a. heimsóknir sínar til bænda í afskekktum sveitum á Ströndum. Á þessum tíma þegar ekkert var sjónvarpið, ekkert net, jafnvel ekki alltaf útvarp kom hann í heimsóknir til manna sem fylgdust vel með því sem var að gerast í umheiminum. Hann gat rætt við þessa menn og þeir höfðu skoðanir á því sem var að gerast í öðrum heimsálfum. Hversu stórt hlutfall okkar veit brot af því sem þessir menn vissu á þá? Spurning sem gaman væri að geta nálgast svar við en er væntanlega ekki hægt úr þessu.
Það er vissulega fyrir löngu síðan kominn tími til að efla þjóðfélagsumræðu á meðal alls almennings hér á landi og hvar er það betur við hæfi en á Bifröst þar sem andi Jónasar frá Hriflu svífur yfir vötnum!
Eflum því pólitíska umræðu – látum hana endilega verða umræðu en ekki einræðu einstakra aðila!
Bifröst 8. maí 2002 Birt á vef skólafélagsins Hrafnaspark
Signý Sigurðardóttir
“Tómleikinn felur í sér andlegan dauða. Hann felur í sér grafhýsi hugsjónanna sem eiga að lýsa upp veruleikann og sýna okkur hvað er raunverulega þess virði að gera. Verði hugsjónirnar tómleikanum að bráð, missum við sjónar á því sem gefur lífinu gildi. Missum við sjónar á gildi lífsins, höfum við engar forsendur til að setja okkur markmið og taka ákvarðanir. Þá verðum við skeytingarlaus í hugsun og hegðun, gerum eitt í dag og annað á morgun uns ruglið og bægslagangurinn byrgja okkur endanlega sýn á heiminn. Þá myrkvast veröldin öll eins og hún leggur sig í efnalegu sem andlegu tilliti… …”andleg viðreisn er eina von okkar.”
Páll Skúlason – Pælingar II
“Blómlegt andlegt líf er forsenda góðs efnahags og bættra stjórnmála”
(birtist í Mbl. 1989)