Við þurfum breytta stefnu… sagði Þuríður Bachmann í eldhúsdagsumræðum rétt í þessu. Fáeinum orðum síðar sagði hún eitthvað á þá leið “Vinstri hreyfingunni – grænu framboði” hefur tekist að koma fram með “nýjan” tón með vinstri stefnu sinni. Þetta varð mér tilefni til þeirra hugleiðinga sem hér fara á eftir. Fyrirgefið mér þó ég leyfi mér að efast um að “vinstri” stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sé boðberi þeirra breytinga!
Ég er hjartanlega sammála því að við þurfum breytta stefnu – og raunar ekki nóg með það – heldur þurfum við breytta hugsun. Nú í upphafi tuttugustu og fyrstu aldar er lag til að hugsa hlutina upp á nýtt – horfa fram á við og nýta lærdóm fortíðarinnar í þeirri viðleitni. Við þurfum að henda gömlum hugmyndum og taka upp aðrar, við þurfum að losna úr viðjum hugmyndafræði gamalla tíma, hugmyndafræði sem var eitt sinn nýttist vel en er úrelt í gjörbreyttu samfélagi nútímans. Og hver er svo þessi nýja hugsun og hver er þessi úrelta hugmyndafræði sem hér er vikið að?
Það er ný hugsun í stjórnmálum sem ég er að vísa til, það er ný hugmyndafræði – uppstokkun spilanna sem ég er að vísa til. Það að tala enn í upphafi tuttugustu og fyrstu aldar um “vinstri” og “hægri” stefnu er úrelt hugmyndafræði og flokkar heimsins eru í mismunandi miklum vandræðum við að aðlaga sig að þessari úreltu hugsun. Við þurfum ekki að líta lengra en til umhverfisins hér á landi, hver er til “vinstri” – hvað er “vinstri” stefna? Hver er til “hægri” hvað er “hægri” stefna? Ég á svo sannarlega í bullandi vandræðum með að skilgreina það. Ég sem alin er upp á einhverju rótgrónasta framsóknarheimili landsins, en hef þó alltaf haldið mig heldur til “vinstri” hef verið í mestu vandræðum með að reyna að aðlaga mínar skoðanir þeim flokki sem mér finnst ég eigi að styðja! Hvers lags rugl er þetta eiginlega, hvernig stendur á því að málum er svo komið að mér finnst ég eigi að styðja eitt eða annað eða aðlaga mínar skoðanir einum flokki eða öðrum – hvers lags hugarfjötrar eru þar að baki? Það eru hugarfjötrar sem mig rennir grun í að margir eigi við að glíma þessa dagana – nema kannski helst heittrúaðir Sjálfstæðismenn sem eru svo trúir sínum að þeim munar ekkert um að kokgleypa öll sín “prinsipp” í fylgni sinni við foringjann!
Um hvað snúast stjórnmál dagsins í dag? Hvaða mismunandi stefnu hafa stjórnmálaflokkarnir sem við getum tekið afstöðu til? Hvaða grundvallarhugsjónir eru til staðar fyrir okkur til að berjast fyrir? Því miður þar er fátt um fína drætti hvert sem litið er. Stjórnmálaflokkar á Íslandi eru allir sem einn í tilvistarkreppu því þeir hafa ekkert lengur sem sameinar þá eða aðgreinir frá hinum. Hér sit ég við borðið mitt heima í stofu og hlusta á eldhúsdagsumræður – og hvað hafa flokkarnir upp á að bjóða til að sannfæra mig um að þeir séu þess verðir að ég eigi að kjósa þá? Ekkert! Þeir koma hver á fætur öðrum í ræðustól, en hver þeirra hefur einhverja ákveðna afstöðu í þeim grundvallarmálum sem ég vil taka afstöðu til – enginn! Hver hefur sett Evrópusambandsaðild á dagskrá – enginn! Hver opnar umræðuna um að opna fyrir beinar erlendar fjárfestingar í sjávarútvegi á Íslandi – enginn! Hver þorir að taka af skarið og horfa fram á við – gefa mér framtíðarsýn – eitthvað til að trúa á – enginn! Þarna eru þeir enn einu sinni – allir sem einn ýmist með eða á móti stóriðju, með eða á móti því sem framkvæmt hefur verið á kjörtímabilinu, þeir eru þarna enn eins og þeir voru þarna fyrir tuttugu árum, gott ef ekki þrjátíu árum, enn að deila um hversu miklu skuli varið til byggðastefnu o.sfrv., o.s.frv.
Ég er alin upp í sveit og frá því ég var smástelpa hefur það þetta orð dunið í orðum mínum “byggðastefna”! Á sama tíma hafa foreldrar mínir - sauðfjárbændur upp í sveit átt sífellt erfiðara með að lifa af. Hvers vegna? Það skyldi þó aldrei vera að hluta þess sé að finna í því að stjórnmálaflokkarnir hafa algjörlega brugðist í því að hafa uppi vitræna umræðu um hver staðan er og í framhaldi af því skoða – hvaða möguleikar eru í stöðunni? Stjórnmálaflokkar á Íslandi hafa lengi verið “með” eða á “móti” byggðastefnu, en hafa þeir einhvern tíma reynt að komast að kjarna málsins? Flestir stjórnmálaflokkar hafa meira eða minna hafa blaðrað út og suður um það hversu mikilvægt það sé að halda byggð í landinu og hafa hver á sinn hátt haft uppi tilburði til að “bjarga” landsbyggðinni frá hruni með misheppnuðum björgunaraðgerðum. Ég spyr – er þetta ekki týpískt dæmi um þörf á nýrri hugsun? Er “byggðastefna” ekki hugmyndafræði sem fyrir löngu er kominn tími til að henda á hauguna – eða getið þið bent mér á að sértækar aðgerðir misviturra stjórnmálamanna hafi gert landsbyggðinni eitthvað gott á undanförnum árum og áratugum? Umræðan um þetta málefni hefur lengi verið á skelfilegu plani án þess að við höfum nokkurn tímann komist nær nokkurri lausn. Málflutningur krata á tímabili var þess eðlis að sauðfjárbændur voru nánast farnir að skammast sín fyrir að vera til – sauðfjárbændur voru sökudólgar fyrir öllu sem aflaga fór í þjóðfélaginu – er það góð aðferð til að leita að kjarna málsins – hefur það að hafa sökudólginn fært okkur einhverju nær lausn þess vanda sem sauðfjárbúskapur og landsmenn allir búa við?
Allir stjórnmálaflokkar hafa meira eða minna blaðrað um nauðsyn þess að efla menntun í landinu – hafa komið fram einhverjar tillögur í því efni? Í fjöldamörg ár hefur þjóðin nánast verið í gíslingu vegna kjara kennara. Nú í upphafi aldarinnar urðu tímamót þegar loks var gerð breyting í þá átt að lagæra þennan vanda – hverjir voru það sem unnu að þeirri lausn? Það voru svo sannarlega ekki stjórnmálamenn, nei – þeir kusu heldur að halda fast við sinn keip þar sem þeirra samningsaðilar voru í verkfalli í nærri tvo mánuði. Er hér ekki þörf á nýrri hugmyndafræði? Þarf ekki að fara ofan í hvað nákvæmlega er verið að tala um þegar sagt er að þurfi að stuðla að og efla menntun og þekkingu landsmanna? Þarf ekki að skoða hvernig er staðan í dag – hvar erum við og hvert viljum við fara? Er ekki kominn tími til að efna til umræðu í öðru formi en slagorðaformi?
Ögmundur Jónasson talaði fjálglega í kvöld um þörf landsmanna á betri vaxtakjörum – ég spyr er hann tilbúinn að skoða aðild að Evrópusambandinu í því tilliti? Eða heldur hann eins og margir virðast enn halda að Ísland sé hið eina sanna eyland – ÓHÁÐ – umheiminum sem eitt og sér geti gert kraftaverk á sviði gjaldeyrismála sem annarra mála. Hannes Hólmsteinn kom hér og hafði uppi stór orð um hugmyndir sínar að Ísland yrði ríkasta land heims, hugmyndir sínar byggði hann á því að Ísland yrði skattaparadís heimsins. Á sama tíma er hann trúr sínum flokki – á móti beinum erlendum fjárfestingum í íslenskum sjávarútvegi! Ég spyr – í hverju ættu erlendir aðilar svo sem að vilja fjárfesta hér ef ekki í sjávarútvegi? Er krónan svo sterkur gjaldmiðill í samkeppni við erlenda gjaldmiðla heimsins að það sé líklegt að erlendir aðilar vilji fjárfesta í skuldabréfum hér – eða hvað á hann nákvæmlega við?
Hér hefur verið látið vaða á súðum – vonandi hefur það skemmt einhverjum. Ég er alla vega að láta draum minn rætast – hvort sem einhver vill taka þátt í honum með mér eða ekki! Mig langar til að sjá og heyra breytingar. Mig langar til að heyra menn tala um það sem skiptir máli. Mig langar til að heyra menn þora að leita að kjarna málsins og takast á við hann. Mig langar til að sjá stjórnmál fara að snúast um annað en það að vera “með” eða á “móti”. Mig langar til að sjá heim þar sem stjórnmál snúast ekki um að vera til “hægri” eða til “vinstri” heldur miklu fremur um það hvað það er sem skiptir máli. Mig langar til að sjá heim þar sem slagorð og markaðssetning þeirra er ekki viðfangsefnið – heldur innihaldið. Mig langar til að sjá heim framkvæmda en ekki innhaldslausra orða sem engu skila. Ég hef tækifærið til að gefa ykkur hlutdeild í þessum draumum mínum – hvað síðan gerist er ykkar að ákveða!
Bifröst 24. apríl 2002 Birt á vef skólafélagsins Hrafnaspark
Signý Sigurðardóttir
“Lífið er eins og aðspila á spil -
með spekingslegum svip og taka í nefið
Þótt þú tapir það gerir ekkert til –
það er nefnilega vitlaust gefið”
Steinn Steinarr