Hún Signý? Hún var alveg frábær! Alveg einstök! Sagði mágur frænku minnar þegar hún spurði hann að því hvernig Signý hefði staðið sig í þjónustu við hann á flutningamarkaði í gegnum tíðina.
Ég brosti út í annað þegar hún sagði mér þetta. Voru engar
fréttir fyrir mig. Ég veit alveg að ég hef ekki bara staðið mig vel – ég hef
staðið mig afburða vel í þjónustu við aðila á flutningamarkaði í gegnum tíðina.
Ég hef staðið styrkum fótum og vitað um hvað ég er að tala og til mín hafa
leitað aðilar vegna þess að þeir vissu að hjá mér voru þeir öruggir. Þeir vissu
að ég var manneskja sem þeir gátu treyst. Manneskja sem leitaði alltaf bestu
mögulegu lausna. Manneskja sem starfaði af fagmennsku að því að þjónusta þá á
besta mögulega veg. Alltaf.
Samt er það svo að íslenskur vinnumarkaður vill ekkert af
mér vita. Þannig hefur það verið lengi. Mjög lengi. Ég veit aldrei almennilega
hvað það er sem ég hef gert af mér. Jú ég veit að mér liggur hátt rómur. Sannarlega.
Það vinnur ekki með mér. En annað veit ég aldrei almennilega hvað er sem ég hef
gert af mér.
Jú ég hef skoðanir. Sterkar skoðanir. Hef opinberað þær í
greinaskrifum í langan tíma og hef aldrei farið í grafgötur með að það hefur
ekki hjálpað mér. Hef samt ekki viljað láta af því. Því mér er sagt að ég búi í
frjálsu samfélagi. Samfélagi þar sem það á að vera í lagi að láta í ljósi
skoðanir. Samfélagi sem gefur sig út fyrir að vera frjálslynt og leyfa fólki að
vera eins og það er.
Veit þó fullvel að auðvitað er það kjaftæði. Íslenskt
samfélag hefur aldrei leyft fólki að njóta verðleika sinna ef það er ekki réttu
megin á hinum pólitíska skala. Tala nú ekki um ef það er kvenkyns að auki. Kvenkyns
og leyfir sér að vera með kjaft! Guð hjálpi þér! Það er auðvitað gjörsamlega út
úr korti.
Þetta flaug um huga minn áðan þegar ég las leiðara
Morgunblaðsins í dag. Leiðara með fyrirsögninni „Lögreglan og lögin“. Leiðara höfundar
sem gleðst yfir því að Ríkissaksóknari hafi gert lögreglustjóra á
höfuðborgarsvæðinu, að taka upp á ný rannsókn á máli sem embættið hafði áður
ákveðið að fella niður. Leiðara sem lýsir nauðsyn þess að sækja til saka Semu
Erlu Serdar og Maríu Lilju Ingveldar
Þrastardóttur Kemp og samtökin Solaris vegna fjársöfunar til þess að greiða
götu palestínskra hælisleitenda frá Gasa hingað til lands um Egyptaland.
Höfundi er mikið niðri fyrir þegar hann gerir grein fyrir
mikilvægi þess að „réttlætið í formi kæru“ fái sinn framgang í þessu máli og
endar leiðarann á því að segja: „Borgararnir verða að geta treyst því að
lögregustjóri láti ekkert trufla framgang réttvísinnar, hvað þá að hann láti
lög og reglu víkja af því að honum, einhverjum eða jafnvel öllum þyki tiltekinn
málstaður góður: Fyrir lögum verða allir að vera jafnir.“
Svo mörg voru þau orð.
Ætlum við að treysta þetta samfélag Ísland í sessi lengi enn?
