laugardagur, 13. janúar 2024

Alræði ríkisvalds

Svo lengi sem ég man hef ég haft sérlega ímugust á misbeitingu valds ríkisins – eins og sú tilfinning sé meðfædd einhvern veginn. Hef sannarlega kynnst slíku valdi mun oftar en ég hef kært mig um og hef ávallt látið í ljósi það álit mitt að íslenskt ríkisvald sé vont vald. Því miður sjaldnast fengið  tilefni til að komast á aðra skoðun.

Eitt af því sem maður þurfti að læra verandi starfsmaður í flutningagreininni var ofríki tollstjóraembættisins. Þar á bæ var talið sjálfsagt að nota hótanir um lokanir fyrirtækja sem daglegt brauð og öllu verra var að viðskiptalífið á Íslandi sá ekki ástæðu til að mótmæla þessum aðförum svo nokkru næmi. Meðvirkni með vinum í stjórnendahópnum hjá ríkisstofnununum var einhvern veginn normið - láta ofríkið og misbeitinguna yfir sig ganga. Maður hafði líka alltaf brjálað að gera og engan tíma til að standa í því að standa í lappirnar gagnvart ríkisvaldinu – þá var betra að gera bara það sem krafist var án tafar og leysa málið þannig.

Tollstjóraembættið hagaði sér alltaf eins og sá sem valdið hefur og síðar þegar ég stöðu til þess að fylgjast með lagasetningu á Alþingi fyrir hönd flutningagreinarinnar kynntist ég þeim aðferðum sem þetta embætti notaði ár eftir ár til að fá stimpil Alþingis til að mega nota geðþóttavald sitt.

Fjármálaráðuneytið leit á það sem sjálfsagðan hlut að leyfa tollstjóraembættinu að sækja sér valdheimildir til þingsins að vild. Starfsmaður fjármálaráðuneytisins var í góðu sambandi við tollstjóraembættið um hvaða lagaheimildir þau þyrftu árlega til að geta betur haft inn- og útflutningsaðila undir hælnum. Sá til þess að búa til lagafrumvörp sem lögð voru fram á síðustu dögum þings – jafnvel svo að Efnahags- og viðskiptanefnd leit á það sem sitt verk að láta frumvarpið fara í gegnum 3 umræður á einum degi. Og hver var það sem kallaður var til að segja álit sitt á frumvarpinu? Nú auðvitað starfsmaðurinn úr fjármálaráðuneytinu sem samið hafði frumvarpið! Þægilegra getur það ekki verið! Ein manneskja innan ríkisstofnunar í beinu sambandi við ráðuneytið sem getur pantað lagabreytingar og fengið þær stimplaðar hjá Alþingi án nokkurs aðhalds af nokkru tagi nokkurs staðar. Alræði ríkisvalds eins og það gerist best.

Því miður getum við búist við því að þetta verklag festist í sessi eftir því sem við skiptum hraðar út fólki á Alþingi. Það er Íslendingum eðlislægt að líta á vald ríkisins sem „rétt“ og gott. Því viðhorfi hef ég kynnst ítrekað. Meira að segja af hálfu blaðamanna. Fyrstu viðbrögð eru ávallt þau að líta svo á að það sem ríkisvaldið fer fram með þurfi engrar gagnrýni við.

Ríkisvald án aðhalds er hryllilegt vald sem misbeitir sér gagnvart þeim sem veikastir standa. Það þekkjum við öll vel ef grannt er skoðað.

Þessi langi pistill er skrifaður hér til að biðla til ykkar sem flestra að velta fyrir ykkur þeim sannleika sem Ólafur Stephensen er hér að skrifa um: https://www.visir.is/g/20242512668d/glaepur-ad-gera-mistok-nema-thu-vinnir-hja-skattinum

Hann upplýsir okkur um að árið 2017 náði tollstjóraembættið í gegn lagabreytingu þar sem refsa má fólki fyrir misgáning í gerð tollskýrslna. Eins og hann segir sjálfur orðrétt : „…tollstjóraembættið vildi að hægt yrði að refsa fólki fyrir misgáning eða mistök. Rökin voru að það væri svo erfitt að sýna fram á ásetning eða stórfellt gáleysi þegar rangar upplýsingar væru veittar í tollskýrslum.“ Hugsið ykkur bara hvað þetta er þægilegt! Þessu náði tollstjóraembættið í gegn! Það þykir semsagt í lagi og sjálfsagt á Íslandi árið 2024 að sækja almenna starfsmenn við gerð innflutningsskýrslna til saka vegna einfaldra mistaka! Það er eins gott að við greiðum þessu starfsfólki há laun – en því miður er það nú væntanlega ekki þannig. Í þessari grein koma jafnframt fram grafalvarlegar afleiðingar þessa. A.m.k. einn starfsmaður hefur þannig komist á sakaskrá fyrir það eitt að hafa fengið rangan pappír í hendurnar til að tollafgreiða eftir.

Þetta er tekið saman hér því mér er mikið niðri fyrir. Skal alveg viðurkenna það að ég fékk áfall að lesa þessa grein Ólafs. Þekki vel aðdragandann – þ.e. ofríkið sem þetta embætti hefur tamið sér að viðhafa og hversu sjálfsagt það þykir að það hafi heimildir til þess – en að það hefði gengið svona langt vissi ég ekki.

Að ríkisstofnun skuli hafa fengið til þess lagaheimild á Alþingi að sækja almenna starfsmenn við gerð innflutningsskýrslna til saka fyrir það eitt að vinna vinnuna sína vissi ég ekki og það finnst mér svo alvarlegt að ég bið alþingismenn sérstaklega að velta fyrir sér því sem hér er tekið saman. Velta fyrir sér ábyrgð sinni.

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...