10 bindi – karlmannsbindi - upphleypt og röðuð í valdapíramída – framan á kápunni. Mjög táknræn og góð byrjun sem segir til um innihald bókarinnar. Eimreiðarelítan – Spillingarsaga heitir bókin sem hér er vísað til og ég kláraði í fyrrakvöld. 464 síðna bók sem segir okkur söguna af því sem hér gerðist á árunum 1982 til ársins 2008. Loksins! Loksins er komin út bók sem segir söguna eins og hún var. Það er sálrænt ákaflega mikilvægt fyrir mig og ég trúi því að svo sé um marga aðra. Spillingin sem hér er líst á trauðla sinn líka í vestrænu samfélagi þó víðar væri leitað…
Eimreiðarelítan er ekki fræðibók. Hún er ekki bók sem hægt
er afgreiða sem slíka. Hún er bók sem lýsir því sem raunverulega gerðist. Hún
lýsir því hvert var aðal viðfangsefni stjórnmálanna á Íslandi í 30 ár. Spilling.
Að koma eignum ríkisins í hendur fámennrar karlaklíku sem á sama tíma hafði
tögl og hagldir alls staðar – hvert sem litið var. Þeir stjórnuðu
lífeyrissjóðunum, þeir stjórnuðu stjórnmálunum, þeir stjórnuðu fyrirtækjunum –
að ógleymdri Kauphöllinni. Sem var aðal valdatækið. Kauphöllin sem malaði gull
undir þessa karla og þeirra lið í þennan tíma þar til spilaborgin hrundi yfir
okkur… fávísan almenning… ekki yfir alla. Við skulum hafa það alveg á hreinu.
Þeir sem voru í klíkunni stóðu uppi keikir.
Það er rosalegt að lesa þessa bók. Ég ætla alls ekki að
halda því fram að ég sé sammála henni í öllu. Það er ég ekki. En meginstefið er
að gefa okkur yfirsýn yfir það sem hér gerðist frá því Davíð Oddsson tók við
stjórnartaumunum í Reykjavíkurborg árið 1982 og fram að hruni og það tekst.
Fullkomlega. Það er bókstaflega magnað að sjá hversu einbeittur viljinn var til
að ná völdum í íslensku samfélagi og hversu áhugalaus hópurinn var um að leyfa
öðrum að eiga hlutdeild í fagnaðarerindinu. „Frelsið“ var ekki fyrir alla. Það
var bara fyrir suma. Og því ekki einu sinni leynt. Línurnar voru lagðar um það
að það væri fullkomlega eðlilegt og sjálfsagt að forsætisráðherra þjóðarinnar
nafngreindi óvini sína – þá sem ekki máttu vera memm og þannig er sviðið enn.
Íslensk valdaelíta hefur engan áhuga sýnt á því að gera upp þessa tíma nema
síður sé og hér sitjum við enn með sárin og ónýta innviði og helst á öllu að
skilja að til standi að taka annan snúning. Í það minnsta var það helst það sem
mér datt í hug þegar ég sá myndir frá „Þjóðmálakvöldinu“ á dögunum. Mér fannst
uppsetningin gefa það til kynna að það væri það sem stæði til. Það var tekið
aftur af stað með sölunni á hlut í Íslandsbanka og kannski var
„Þjóðmálakvöldið“ bara til að fagna því og efla menn til dáða.
Ég persónulega fékk mikið út úr því að lesa þessa bók. Ég
sem lengst af þessa tíma starfaði fyrir kjarna þessa hóps með bullandi
pólitískan áhuga fylgdist með ósköpunum í forundran og skildi ekki hvað gekk á.
Ég fór í nám á Bifröst árið 1999 en þá voru stjórnendur fyrirtækja ennþá
„venjulegir menn“ að mestu. Þegar ég kom út árið 2002 voru þeir allir orðnir að
„guðum“. Í litlum sem smáum fyrirtækjum – allir komnir í guðatölu með guðleg
laun. Frá árinu 2002 var ekki hægt að fara í fermingarveislu öðruvísi en allir
karlarnir í veislunni væru að tala um hlutafjárkaup í deCode eða Eimskip og
allir ætluðu að græða og græða meira. Ég var miður mín. Ég hélt þegar ég fór á
Bifröst að samfélagið gæti ekki orðið sýktara af tali um peninga! En þar
skjátlaðist mér. Rosalega skjátlaðist mér.
Ég bókstaflega fylgdist með því í beinni þegar Hannes
Hólmsteinn Gissurarson kom á Bifröst með fyrirlesturinn um að „Ísland yrði
ríkasta land í heimi“… Já það var það sem til stóð. Það var það sem ætlunin
var. Því er lýst í bókinni hvernig stjórnmálin og viðskiptalífið á Íslandi var
bókstaflega sami hluturinn eða svona því sem næst… og hvernig þeir notuðu
fjölmiðlana eins og Ríkisútvarpið til að segja uppsprengdar fréttir af
einstökum samningum sem keyrðu upp verð hlutabréfanna í Kauphöll aftur og aftur
og aftur…
Já þetta er saga sem þarft er að segja og var satt að segja
tími til kominn.
Til hamingju Þorvaldur Logason og hafðu bestu þakkir fyrir!
https://www.penninn.is/is/book/eimreidarelitan-spillingarsaga
P.S. Og ég legg til að forsvarsmenn Hagsmunasamtaka
heimilanna lesi þessa bók. Helst tvisvar.