Las tvær greinar hér á vefnum í gær sem vöktu áhuga minn. Önnur var skrifuð af leikskólastjóra Jónínu Einarsdóttur og hin af formanni Félags leikskólakennara Haraldi Frey Gíslasyni. Báðir einstaklingar sem ég virði mikils en rak mig á við lestur þessara greina að ég sé ástæðu til að andmæla þeim. Upphátt með skýrum hætti.
Bæði gerðu að umtalsefni mikilvægi leikskólanna og leikskólakennarastarfsins
– þar erum við svo sannarlega sammála. Fáar stofnanir samfélagsins tel ég
mikilvægari og það sama á við um stéttina sem starfi þeirra stýra – leikskólakennara.
Starf þeirra er gríðarlega mikilvægt.
Hvað var það þá sem ég sá ástæðu til að andmæla með skýrum hætti?
Það var sú tilhneiging þeirra beggja að kannast ekki við að hlutverk þeirra sé
annað en „kennsla“ yngstu barnanna. Nánast eins og það snerti ekki foreldrana
með neinum hætti eða komi þeim við. Leikskólar séu bara mikilvægar stofnanir
til að „kenna“ yngstu börnunum og „gæsla“ eigi þar engan hlut að máli. Þessu sé
ég tilefni til að mótmæla. Svo ekki fari milli mála.
Leikskólar eru gríðarlega mikilvægar stofnanir. Gríðarlega.
Og hafa grundvallaráhrif á velsæld fjölskyldna í landinu. Um það efast ég ekki
eitt augnablik. En að halda því fram að „gæsla“ barna sé eitthvað niðrandi
fyrirbæri sem ekki megi tala um í sambandi við hlutverk leikskóla er eitthvað
sem ég get ekki sætt mig við.
Það er þannig hvort sem Haraldi Frey eða Jónínu líkar það
betur eða verr að leikskólar með aðgangi allan daginn fyrir öll börn er grundvöllur
að raunverulegi jafnrétti kynjanna á Íslandi. Þannig var það þegar ég var ung.
Þannig er það enn. Ef að konur eiga að eiga raunverulegt val um að velja sér
starfsvettvang og helga sig honum – til jafns við karla. Verða að vera til
leikskólar til að „gæta“ barnanna. Og það er ekki eitthvað lítilsiglt ómerkilegt
hlutverk. Það er hlutverkið. Það sem öllu máli skiptir. Þannig var það þá og
þannig er það enn.
Það mikilsverðasta í lífi hvers barns er að umönnunaraðilar
þess hvort sem það eru tvær mömmur, tveir pabbar, pabbi og mamma eða hvað annað
er ást þeirra þeim til handa. Hvort að þau eru á leikskólanum í 8 tíma eða 9
tíma hefur engin grundvallaráhrif á velferð þeirra sem fullorðinna manneskja. Það
skiptir máli að innan leikskólanna starfi fagfólk – leikskólakennarar og að þau
njóti stuðnings og verðlauna í samhengi við starf sitt.
Lengi vel var það svo að ánægja foreldra með leikskóla í
landinu var umtalsverð. Svo mikil að eftir því var tekið. Það var ekki þannig
með skólana á sama tíma. Samt er það svo að leikskólakennarar sjálfir tala um
skólana og starfið sem þar fer fram sem svo miklu merkilegra starf en starfið
innan leikskólanna. Til að njóta virðingar verður það að heita „kennsla“ og það
verður helst að hafa umgjörð sem er sambærileg við umgjörð kennara í skólum
landsins!
Hér finnst mér vert að staldra við. Hverjar eru þarfir
foreldra fyrir starf leikskóla? Skipta þær engu máli? Af því að um ræðir þarfir
kvenna er þá leyfilegt og sjálfsagt að láta eins og þær séu ekki til og skipti
engu máli? Hvar eruð þið ungu konur sem þurfið á leikskólaplássum að halda?
Ætlið þið að leyfa þessari umræðu að þróast með þessu hætti lengi enn?
Börn undir sex ára aldri (og reyndar miklu lengur…) þurfa
fyrst og fremst ást. Og þau þurfa rúm til að að leika sér. Leikurinn er það
mikilvægasta fyrir hvert barn á þessum aldri og það er hann sem leikskólinn á
að standa vörð um. Það getur vel verið að það heiti „kennsla“ frekar en „gæsla“
en það breytir ekki því að gæsluhlutverkið er ekki síður mikilvægt. Gæslan er hvorki
meira né minna en grundvallaratiði þess að hægt sé að tala um jafnrétti
kynjanna á vinnumarkaði.
Má ég biðja ykkur forsvarsmenn leikskóla að gleyma því ekki?
