Ég kann best að lýsa þér með ást þinni á kveðskap. Ég hef engum öðrum kynnst á minni ævi með aðra eins ást á hvers kyns kveðskap. Þú kunnir utan að ógrynni af vísum og ljóðum og undir það síðasta þegar getan var farin á mörgum sviðum var þetta svið eftir og þú naust þess óspart. Það síðasta sem þú hafðir að segja við mig daginn áður en þú fórst var vísa.
Ég minnist þín skellihlæjandi inni í herbergi að lesa Ævisögu Árna prófasts Þórarinssonar. Það var unun að hlusta á þig skellihlæja upphátt við lesturinn. Í minningunni lastu þessar bækur reglulega.
Ég horfi á þig kjá framan í börn og leika við þau. Bræður mína og systur, barnabörn bræðra þinna, dóttur mína, önnur barnabörn þín og langafabörn. Þú elskaðir börn og þau elskuðu þig.
Ég horfi á þig ganga að mömmu þar sem hún er að elda kvöldmatinn og snerta hana með þeim hætti að við vorum alltaf handviss um að þú elskaðir hana meira en allt.
Ég minnist ykkar koma heim af böllum eins og ástfangnir unglingar. Ég var svo montin af því. Mér fannst svo gott að eiga foreldra sem elskuðu hvort annað heitt.
Ég minnist þín fá börn bræðra þinna í heimsókn. Sýna þeim áhuga og eiga við þau langar samræður um allt milli himins og jarðar.
Ég minnist hlátraskalla þinna, viðkvæmni þinnar, barnsins sem alltaf var grunnt á þegar þú varst annars vegar. Ég hefði viljað kynnast þessu barni nánar en þú vildir það ekki.
Mig langar að þakka þér fyrir allt. Þakka þér fyrir atlætið í æsku. Þakka þér fyrir ástina sem þú barst til mömmu og okkar allra barnanna þinna, barnabarnanna, langafabarnanna og til barna allra bræðra þinna. Þakka þér fyrir áhugann sem þú sýndir þeim síðasttöldu alltaf þegar þau komu yfir til okkar og skipti mig alltaf svo miklu máli. Það er nefnilega ástin sem öllu skiptir – held ég. Ég held það sé ástin – kærleikurinn sem maður skilur eftir sig sem skiptir máli. Þar stóðst þú þig vel pabbi – þú snertir hjörtu margra. Ég elska þig.
Það var eitt kvöld að mér heyrðist hálfvegis barið,
ég hlustaði um stund og tók af kertinu skarið,
ég kallaði fram, og kvöldgolan veitti mér svarið:
Hér kvaddi Lífið sér dyra, og nú er það farið.
(Jón Helgason)
Takk fyrir allt pabbi minn.
Þín dóttir,
Signý.
