fimmtudagur, 14. október 2021

Ísleifur Halldórsson - minning 5. okt. 2021

 


Ég sé hann fyrir mér, umfaðma mig með einstakri hlýju í augum og bros á vör. Þannig tók hann mér. Alltaf. Ég fann væntumþykju hans og það breyttist aldrei – hún var gagnkvæm.

Ísleifur Halldórsson – eini maðurinn sem ég hef kallað tengdapabba á minni ævi – er látinn, örfáum dögum fyrir 89 ára afmælisdaginn. Ég kveð hann með þakklæti. Hann var mér, ásamt ástkærri tengdamóður minni, Kolbrúnu Þorfinnsdóttur, mikil stoð í því hlutverki að koma dóttur minni til manns. Kolbrún mín var augasteinninn hans og á milli þeirra ríkti einstaklega fallegt samband sem mun fylgja henni alla ævi.

Þeir sem þekktu Ísleif Halldórsson hefðu kannski ekki látið sér detta í hug að þar færi maður sem léti sjá sig með marga tíkarspena í hárinu, málaðan í framan með stríðsmálningu eða skellihlæjandi í dansi en þegar Kolbrún Þorfinnsdóttir, sonardóttir hans, var annars vegar var þetta sjálfsagt mál. Ég var sjaldnast þátttakandi í þessum athöfnum – þær voru eitthvað sem þau áttu saman án mín og ég hef bara fengið að sjá á myndum. Ég segi frá þessu hér því það segir svo margt um hlutverkið sem Ísleifur Halldórsson átti í lífi dóttur minnar. Fyrir hana var hann til í allt.

Elsku Ísleifur, það var ánægjulegt að sjá þig eldast. Hugsa oft til þess að ég myndi vilja eldast eins og þú gerðir. Sáttur við lífið og lagðir allt í að elska þitt nánasta fólk og leyfa því að finna það. Við sáumst ekki oft síðustu árin þín og ég get ekki hreykt mér af því að hafa verið dugleg að heimsækja þig en í hvert skipti fékk ég að vita hversu vænt þér þótti um mig. Fyrir það er ég óendanlega þakklát. Það er gott að elska, eins og Bubbi segir, og það er ekki síður gott að vera elskaður.

Með þessum fátæklegu orðum vil ég þakka þér fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig. Fyrir að vera ávallt til staðar og taka því fagnandi að fá að passa augasteininn þinn í hvert skipti sem á þurfti að halda.

„Far þú í friði, friður Guðs þig blessi, hafðu þökk fyrir allt og allt.“

Elsku Kolbrún eldri, Kristín, Linda, Þorfinnur, Halldór, Gunnar, Kolbrún mín, tengdabörn, afabörn og langafabörn – innilegar samúðarkveðjur.


Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...