föstudagur, 6. október 2017

Lærdómur 20. aldar

Sat Bókmenntahátíð á dögunum. Eins og alltaf áður fékk maður góðan skammt af andlegri næringu. Svo óendanlega gott að vera umvafinn húmanisma, víðsýni og mannelsku í nokkra daga.

Einn þeirra sem talaði til hjarta míns á hátíðinni var Timothy Snyder sagnfræðiprófessor við Yale háskóla. Þar fór maður sem talaði tæpitungulaust. Hann hræddist ekki að tala um hvað kjör Donald Trump í embætti forseta Bandaríkjanna þýddi í raun og hann hræddist ekki að setja það sem er að gerast í heiminum í dag í samhengi við söguna. Hann hræddist ekki að krefja okkur um að sýna ábyrgð. Hvert og eitt okkar. Það væri það eina sem við gætum gert í stöðunni; að taka ábyrgð.

Til að verjast þróun fasismans á 21. öldinni verðum við að taka ábyrgð. Núna.

Í bók sinni um tuttugu atriði sem læra má af 20. öldinni hvetur hann okkur til að trúa á sannleikann. Yfirlætislaust og sjálfsögð hvatning en um leið svo full af merkingu.

Hvað þýðir það að vera hvattur til að trúa á sannleikann?

Að trúa ekki lygi?

Hvaða erindi gæti það átt við okkur á Íslandi á 21. öldinni?

Hann hvetur okkur til að vera ekki auðtrúa. Dvelja ekki um of á internetinu heldur eyða meiri tíma í raunverulegum samskiptum við fólk. Hann biður okkur um að passa upp á tölvurnar okkar, reikningana okkar, passa upp á að verða ekki hökkuð. Hann hvetur okkur til að láta ekki afvegaleiða okkur. Fara í að horfa á persónulegt líf fólks í staðinn fyrir að horfa á aðalatriðin. Það sem skiptir máli.

Hann talar tæpitungulaust um lygina sem verkfæri þeirra sem vilja ná völdum. Að við þurfum að vera á varðbergi og láta ekki villa okkur sýn.

Ég fékk gæsahúð að hlusta á hann. Aftur og aftur og aftur. Hef beðið lengi eftir að hlusta á einhvern segja nákvæmlega það sem hann sagði. Hættum að vera meðvirk með bullinu. Stöndum upp fyrir sannleikann. Raunveruleikann. Og munum að hafa athyglina á því sem skiptir máli.

Í hönd fara kosningar á Íslandi í annað sinn á einu ári. Eins og síðast kosningar sem skipta verulega miklu máli. Kosningar sem munu segja til um hvert við ætlum að fara næstu árin.

Í kosningabaráttunni sem í hönd fer skiptir meira máli en flest annað að við höfum athyglina á því sem skiptir máli. Að við pössum upp á sannleikann. Að við látum ekki afvegaleiða okkur.

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...