þriðjudagur, 24. janúar 2017

Mæðurnar fundnar

Velti upp á dögunum hvar mæðurnar væri að finna í fræðunum, hvort þær væru engar. Allar fræðigreinar háskólanna eiga sér feður en minnist þess ekki að hafa heyrt minnst á móður. Minnist þess heldur ekki að neinn hafa saknað þeirra. Þannig virðist mannkyninu finnast einkynja fræði fullkomlega sjálfsögð og eðlileg.

Gladdist því ómælt á dögunum þegar ég áttaði mig á hvar mæðurnar er að finna. Í heimspekinni auðvitað! Í bók sinni Tilraun um manninn talar Þorsteinn Gylfason um heimspekina sem móður allra fræða, allra vísinda og ég kveikti á perunni. Auðvitað. Svo fullkomlega lógískt. Heimspekin er móðirin. Móðir allra fræða og vísinda.

Segir allt. Viðskiptafræðin þessi karllægu einkynja fræði þarfnast móður. Og hún er til. Þarf ekkert annað en taka henni fagnandi og bæta henni inn á hverju misseri. Hversu miklu betri yrði heimur okkar þá? Það eina sem við þurfum að gera að bæta viskunni inn. Ást á viskunni. Við þörfnumst hennar. Heimspekinnar. Móðurinnar. Einkynja „fræðin“ eru að ganga frá okkur dauðum.

Síðustu mánuði hef ég sannreynt mikilvægi hennar, heimspekinnar. Félagsskapur við heimspekinga fyrri alda gaf mér líf. Og í það held ég á hverjum degi. Heimspekin nærir. Á tímum þegar karlremba viðskiptalífsins er komin í forsæti valdamesta ríkis heims er þörf á næringu.

Í gærkvöld lauk ég lestri á bókinni „Um fagurfræðilegt uppeldi mannsins“ eftir Friedrich Schiller í þýðingu Þrastar Ásmundssonar og Arthúrs Björgvins Bollasonar. Bókin er bréf sem birt voru í tímaritinu Die Horen á árinu 1795 og innifelur heilræði Schiller til umheimsins á tímum þegar áhrif frönsku byltingarinnar voru í algleymingi.

Í dag þegar nýtt Alþingi Íslendinga kemur saman í upphafi árs 2017 væru þessi litla bók tilvalin Biblía fyrir þingmenn. Hefur að geyma visku sem við þörfnumst.

„Í ríki smekkvísinnar verður jafnvel hinn mesti snillingur að afsala sér hátign sinni og stíga í auðmýkt niður af stalli sínum til þess að hugsa aftur eins og lítið barn. Krafturinn verður að leyfa þokkagyðjunum að leggja sig í fjötra og hið stolta ljós verður að sætta sig við að láta ástarguðinn hafa taumhald á sér. Til þess kastar smekkvísin mildandi hjúp sínum yfir þær náttúrulegu þarfir sem í sinni nöktustu mynd lítilsvirða sæmd frjálsra anda; og með ljúfri blekkingu frelsisins felur hún fyrir okkur lítillækkandi skyldleika okkar við efnið. Og jafnvel þeirri list sem verður að skríða í duftinu til að fá umbun ljær smekkvísin vængi svo að hún lyfti sér upp úr lágkúrunni; og við snertingu frá töfrastaf hennar falla fjötrar ánauðarinnar jafnt af því sem er lífvana og hinu sem lifir. Í hinu fagurfræðilega ríki er allt – líka verkfærið sem þjónar – frjáls borgari sem nýtur sömu réttinda og þeir sem göfugastir eru; og hugsunin sem annars beygir þolinmótt efnið undir markmið sín með valdi, verður hér fyrst að biðja um samþykki þess. Hér, í ríki hinnar fagurfræðulegu sýndar, hefur því jafnréttishugsjónin ræst sem eldhuginn vildi svo gjarna sjá verða að raunveruleika í verunni. Og sé það satt að góðir siðir þroskist hraðast og best í námunda við hásæti, hljótum við þá ekki að sjá í þessu velviljaða ráðstöfun forsjónarinnar sem oft virðist setja manninum ákveðnar skorður í veruleikanum, til þess eins að beina honum inn í hugsjónaheiminn?“

(Schiller, Friedrich, 2006. Um fagurfræðilegt uppeldi mannsins. Í þýðingu. Arthúr Björgvin Bollason og Þröstur Ásmundsson. Birtist fyrst á frummálinu árið 1795. Bls. 255-256).

Fátt gæti ég hugsað mér gagnlegra fyrir íslenskan þingheim í upphafi árs árið 2017 en einmitt skilaboð þessarar bókar.

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...