Af hverju skiptir það öllu máli hvaðan gott kemur?
Ég bý í þannig samfélagi – þar sem skiptir öllu máli hvaðan gott kemur.
Full aðild að Evrópusambandinu hefur verið á stefnuskrá Samfylkingarinnar frá stofnun eða þar um bil. Lengi vel þó aldrei aðal kosningamálið – til þess voru strákarnir í viðskiptalífinu hægra megin við miðju of áhrifamiklir. Samfylkingin hefur alltaf þurft að taka mið af þeim. Alltaf þurft að vera meðvirk með þeirra afstöðu til hlutanna.
Þar kom að flokkurinn gerði sér þó grein að þessi meðvirkni gekk ekki lengur. Þegar hún hafði orsakað stærri hagsveiflu en nokkurt okkar hafði órað fyrir. Bólu í hæstu hæðum og algjört hrun, þá loksins var kominn tími til að standa með sjálfum sér af fullum krafti og gera þetta mál að máli málanna. Fulla aðild að Evrópusambandinu.
Þegar til átti að taka gekk það þó ekki upp. Strákarnir í viðskiptalífinu voru ekki tilbúnir “að vera memm”. Til þess lyktaði Samfylkingin um of af styrk kvenna. Ef strákarnir hefðu tekið ákvörðun um að styðja þann flokk væru þeir að veikja stöðu sína um of. Því kusu þeir að gera það ekki. Þeir kusu að fara eins og köttur í kringum heitan graut á tíma þar sem stuðningur fylgjenda skipti öllu máli.
Samfylkingin var vinalaus. Ein á eyðiskeri í málinu og enginn tók upp hanskann fyrir hana. Ekki frekar en nokkur tekur upp hanskann fyrir konur í sömu stöðu.
Strákarnir sem hugsa um sérhagsmunina, alltaf um flokkinn sinn, aldrei um hagsmuni okkar allra voru kosnir aftur í valdastóla. Með fylgi sem aldrei fyrr. Meðal annars af okkur konum sem trúum því aldrei almennilega að okkur kyni sé treystandi. Hrunið skerpti á þeirri trú kvenna.
Samfylkingin missti allt traust og enginn með snefil af sjálfsvirðingu vildi kannast við hana nema fáeinir sérvitringar eins og þessi sem hér skrifar. Undirrituð varð ekki eindreginn stuðningsmaður Samfylkingarinnar fyrr en þessi staða kom upp. Þegar augun opnuðust loksins upp á gátt fyrir því hvað var í gangi.
Sérhagsmunagæsla strákanna var svo mikil opinberun – svo skýr í afleiðingum hrunsins miðjum að það varð ekki aftur snúið. Upp frá því hefur verið leitun að ákafari stuðningsmanni þessa flokks Samfylkingarinnar. Alveg sama þó einhver dæmi séu um að hún tali gegn minni sannfæringu. Í stóru myndinni skiptir mig meira máli tilvist þessa flokks og fyrir hvað hann stendur.
Liðin eru 8 ár frá hruni og ekkert bólar á endurkomu fylgis Samfylkingarinnar. Konurnar trúa strákunum eins og nýju neti. Þeir hljóta alltaf að hafa rétt fyrir sér. Allt sem strákarnir segja og gera er rétt og satt. Ef kona segir eitthvað sem vekur áhuga þarf fyrst að ganga úr skugga um að strákarnir samþykki það sem hún segir áður en það er samþykkt. Ef strákarnir samþykkja ekki það sem hún segir er það einskis virði.
Síðustu vikur hefur gengið svo langt í þessari flokkun hvaðan gott kemur að undirrituð hefur fengið að heyra í tvígang að hún og hennar einarða afstaða til mála sé ástæða slæms fylgis Samfylkingarinnar. Fyllist stolti yfir slíkum höfðingsskap en verð um leið að afþakka valdið sem mér er gefið með slíkum ályktunum afdráttarlaust. Hversu mjög sem ég vildi óska þess hef ég ekki slíkt vald að mér sé um að kenna fylgi Samfylkingarinnar og þykir mjög miður ef ég eyðilegg daginn fyrir einhverjum með þeirri fullyrðingu.
19. júní er framundan. Gæti kannski verið komin tími til þess að við könnumst við muninn á því hvernig við horfum á konur og karla? Hvernig við meðhöndlum skoðanir kvenna og hvernig við meðhöndlum skoðanir karla?
Eða ætlum við langt fram á 21. öldina með þann farangur að það skipti öllu máli hvaðan gott kemur?
Höfundur þessa bloggs er alin upp á Melum í Hrútafirði og hefur haft ólæknandi áhuga á samfélaginu frá barnsaldri. Byrjaði að skrifa greinar og fékk birtar á vefnum www.kreml.is á árunum 2003 – 2004 eða þar til honum var lokað. Hef síðan af og til fengið birtar greinar í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Skrifaði blogg þegar þegar efnahagshrunið dundi yfir og var mjög virk á árinu 2009. Tek hér saman allar mínar greinar og vonast til að hér megi þær liggja.
laugardagur, 11. júní 2016
Gerast áskrifandi að:
Ummæli (Atom)
Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Eitt af því sem maður þarf að meðtaka verandi kona er að allt sem þykir „kvenlegt“ er ómerkilegt. Nýtur ekki sjálfgefinnar virðingar eins og...
-
Málflutningur leikskólakennara og stjóra í þá veru að senda konum skömmina af því að vilja vinna fullan vinnudag hefur náð svo miklum árangr...