mánudagur, 16. maí 2016

Sögunni breytt


Var einu sinni fengin til að vera ritstjóri fréttabréfs. Tók hlutverkið mjög alvarlega og lagðist í rannsókn á málefninu sem ég ætlaði að skrifa um. Rannsóknin tók nokkra daga og ég var alsæl með útkomuna. Var vinna í þágu samtaka sem skiptu mig öllu máli og ég var svo glöð að geta lagt henni lið með þessum hætti. Notað reynslu mína til að vekja athygli á máli sem alla jafna var ekki verið að fjalla neitt um.

Næsta sem ég vissi var að karl sem hafði fengið mig til að vera ritstjóri hringdi í mig til að biðja mig afsökunar. Afsökunar á hverju? Jú hann hafði sent greinina í sínu nafni á ritstjóra Morgunblaðsins og þar var hún birt nánast óbreytt undir nafni hans í miðopnu blaðsins.

Ég trompaðist og lamaðist í sömu andrá... Man augnablikið eins vel og það hafi gerst í gær en það eru 12 ár síðan þetta gerðist. Ég ákvað að standa mér sjálfri mér í þetta skipti sama hvað það kostaði. Ég skyldi ekki láta þetta yfir mig ganga án þess að sporna við fótum. Ég mótmælti þessu við ritstjóra Morgunblaðsins Styrmi Gunnarsson. Sagði honum að ég hefði skrifað þessa grein og vildi fá leiðréttingu. Ég skrifaði stjórn samtakanna og lét þau vita að ég vildi fá þetta leiðrétt. Undirtektirnar voru litlar nema frá Styrmi Gunnarssyni. Hann lét sig málið varða og lét sig hafa það að birta leiðréttingu í blaðinu nokkru síðar. Auðvitað tók enginn eftir leiðréttingunni. Greinin hafði birst undir nafni karlsins og því fékk enginn breytt. En hún skipti samt máli fyrir mig. Miklu máli. Sagan hafði verið leiðrétt.

Þessi saga rifjast upp fyrir mér nú þegar hver karlinn um annan þveran reynir að breyta sögunni körlunum í vil. Hef ekki þol fyrir því lengur. Löngu, löngu búin að fá upp í kok af þessari viðleitni þeirra en veit um leið að hún virkar. Hún virkar þessi leið þeirra til að breyta sögunni. Hagræða staðreyndum þannig að konur eru gerðar ósýnilegar nú eða bara sökudólgar að því sem illa fer. Verst af öllu er að það eru alltaf konur sem eru tilbúnar að leggja þeim lið.

Hef persónulega reynslu af þessu sem dygði til að skrifa heila bók. Kannski geri ég það einn daginn. Var formaður nemendafélags í síðasta bekk gagnfræðaskóla. Skólastjórinn sem skrifaði sögu skólans þurrkaði nafn mitt út úr því hlutverki, það kemur hvergi fram heldur er skólabróðir minn og sveitungi skráður formaður félagsins þetta ár 1978 – 1979. Mig langaði alltaf til að óska eftir leiðréttingu á þessu – en hvernig fær maður leiðréttingu á einhverju sem prentað hefur verið á bók?

Í störfum mínum á vinnumarkaði þar sem ég var foringi sem hlustað var á og tekið mark á var gengið svo langt að gera mig að sökudólgi fyrir vondum móral á vinnustað. Þar var kona fremst í flokki. Kona sem líkaði ekki vinsældir mínar. Það atvik varð afdrifaríkt.

Ég er persónuleg hér því mér finnst það skipta máli. Það er sárt að horfa á karlaveldið taka sig saman um að breyta sögunni. Gera konur ósýnilegar eða að sökudólgum fyrir því sem þær eru saklausar af. Og það er sárt að horfa á konur vera þátttakendur í þessum leik þeirra. Hef starfað í karlaveldinu alla tíð. Vanist því að strákarnir hafi fengið stjórnunarhlutverk og titla án þess að hafa nokkru sinni sýnt nokkuð til að vinna fyrir þeirri stöðu.

Hef starfað í umhverfi þar sem ég veit að strákarnir eru á miklu, miklu, miklu hærri launum auk þess að hafa titil á meðan ég er sú sem ber ábyrgðina. Þannig er bara þetta umhverfi sem ég fæddist í og eins gott að sætta sig við það ætli maður ekki að verða brjálaður.

En það eru mörk. Það eru mörk á því hvað hægt er að leyfa körlunum að ganga langt. Ég ætla ekki leyfa þeim að breyta sögunni í grundvallaratriðum. Þeir geta gert tilraun til þess en það mun koma í hausinn á þeim aftur.

Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur verður ekki kennt um hrunið.
Jóhönnu Sigurðardóttur ekki heldur.
Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur verður ekki kennt um lítið fylgi Samfylkingarinnar.
Hversu mjög sem þeir óska þess.     

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...