Minnist hádegisverðar fyrir u.þ.b. tveimur árum með félaga mínum og vini hans, Rússa sem hér býr. Komst í uppnám í þessum hádegisverði og því rifjast hann upp nú.
Ég var nýkominn af Alþjóðlegu bókmenntahátíðinni þar sem ég hlustaði m.a. á upplestur úr bókinni „Rússland Pútíns“ eftir Önnu Politkoskaju. Eins – og að ég hélt þá – sönnum Íslendingi sæmir talaði ég af fullkomnu sjálfstrausti um hryllilegt stjórnarfar í Rússlandi Pútíns. Var komin inn í bókina og var slegin miklum óhug. Eftir á að hyggja talaði ég af miklum hroka um samfélag sem ég sannarlega hafði ekki hundsvit á – en samt – ég vissi að lýðræði skipti mig miklu máli. Vissi að ég væri heppinn að búa við vestrænt lýðræði en ekki í Rússlandi Pútíns og fannst ég hafa fullan rétt á að tjá mig um það opinskátt og skýrt.
Ég komst í uppnám þegar ég uppgötvaði að ég og Rússinn deildum aldeilis ekki sömu viðhorfum til þess. Það var ekki að heyra að „lýðræði“ skipti hann neinu máli og fyrir þessari konu, Önnu Politkovskaju, bar hann enga virðingu. Orðaði það einhvern veginn svo „hver var hún svo sem“? Einhver kona út í bæ. Skipti nákvæmlega engu máli. Hann talaði af aðdáun um Kínverja og hversu vel þeim hefði tekist að byggja upp efnahagskerfið. Rússar, hinum megin við sundið þaðan sem hann var, horfðu aðdáunaraugum yfir. Allt tal hans bar að sama brunni. Það eina sem skipti hann máli voru efnahagsmálin. Hann gaf lítið fyrir lýðræði og mannréttindi skiptu heldur ekki máli.
Þessi saga kemur upp í hugann nú þegar ég uppgötva mér til furðu og skelfingar að það eru í kringum mig Íslendingar – einungis karlmenn ennþá – sem ég heyri ekki betur en deili þessum viðhorfum hvað Ísland varðar. „Skiptir einhverju máli hvaðan peningarnir koma“? Er ekki bara besta mál ef Kínverjar eða Rússar eru til í að bjarga okkur?
Er það svo? Finnst okkur það, hinum almennu borgurum í þessa lands? Erum við til í að selja okkur Rússum ef þeir eru til? Eða Kínverjum ef þeir eru til? Bara ef við fáum aftur að dansa hrunadansinn í kringum gullkálfinn og byrja aðra hringferð?
Eru framfarir 21. aldarinnar í okkar heimshluta og vestrænt lýðræði okkur einskis virði? Ekki þess virði að barist sé fyrir því? Bara ef við fáum að dansa einn dansinn enn?
-------------------------------------------------------------------
Rifjast upp fyrir mér annar fundur, nú með vini mínum í Brussel, sem stýrir stóru fyrirtæki þar. Við áttum fund í júní 2010 þar sem ég lýsti fyrir honum skelfilegri pólitík Íslands og hversu mjög ég þráði breytingar í þá átt að við yrðum aðilar að Evrópusambandinu. Ég talaði frjálslega vitandi að dagar mínir í því starfi sem ég var í voru taldir.
Hann spurði mig að því af hverju þeir ættu svo sem að vera áhugasamir um að taka við okkur? Taka við einu eylandinu enn? Bað mig að horfa til Breta – hvað hefðu þeir svo sem gert fyrir sambandið annað en vera með eilífar uppákomur og vandræði? Af hverju ættu þeir að kjósa fleiri slíka aðila sem hefðu engan áhuga á því að starfa af heilum hug að sameiginlegum innri markaði? Í lok fundarins teiknaði hann upp fyrir mig mynd af „stríðinu“ um yfirráð heimsins á þessu tíunda ári 21. aldar. Hann teiknaði upp Ísland og lét að því liggja að Kínverjar gætu allt eins spilað hlutverk í því hvert Ísland myndi halla sér.
Ég horfði á hann opinmynnt og vantrúuð – en samt ekki. Ekki nema ár síðan ég hafði farið í heimsókn til Berlínar og allt í umhverfinu þar minnti mig á það sem var að gerast á Íslandi á fyrstu árum aldarinnar. Það var auðvelt að finna samlíkingar með mikilmennskubrjálæði Íslendinga á fyrstu árum aldarinnar og nasismanum. Það var auðvelt að finna samlíkingar með háværri orðræðu búsáhaldabyltingarinnar á Íslandi og austur-þýskum kommúnisma. Af hverju gæti það svo sem ekki líka verið raunhæfur möguleiki að Íslendingar ættu eftir að halla sér til Kína?
Þetta leitar á mig nú 27. febrúar 2014 á Íslandi. Ég er ekki í vafa um hvert ég vil að Ísland stefni. Ég er algjörlega sannfærð. Ég trúi ekki á „fyrirmyndarríkið“. Ég trúi á samstarf þjóða og frjáls viðskipti þeirra í milli til að auka hagsæld allra íbúa viðkomandi samfélaga. Ég fyllist skelfingu yfir tilhugsuninni að kannski sé fjöldi karlmanna á Íslandi – bíðandi á hliðarlínunni eftir að geta hafið hrunadansinn á ný og skeyti ekkert um hvaðan peningarnir til þess koma. Það skiptir máli hvaðan peningarnir koma.
Stefan Zweig sá ástæðu til að skrifa bók um heimsstyrjaldirnar til þess að við mættum af því læra. Í sumar verða 100 ár liðin síðan Fyrri heimsstyrjöldin hófst.
Lýðræði er ekki sjálfsagt. Friður er ekki sjálfsagður. Áunninn mannréttindi eru ekki sjálfsögð. Framfarir í samfélagi okkar heimshluta hafa ekki fengist fyrir ekki neitt.
Minnumst þess og verum ábyrg. Stöndum upp fyrir vestrænu lýðræði því það er þess virði. Miklu meira virði en græðgi karla okkar samfélags sem engu skeyta um hag okkar en þeim mun meira um sinn eigin.
Eftirmáli:
Verð að láta þess getið hér af því það skiptir máli að þessi grein lá óbirt í tvö ár. Var birt fyrst á árinu 2016 þegar höfundar fékk hugrekki til að birta hana. Veit ekki núna af hverju þetta kjarkleysi stafaði en það var sannarlega til staðar í febrúar 2014.
Höfundur þessa bloggs er alin upp á Melum í Hrútafirði og hefur haft ólæknandi áhuga á samfélaginu frá barnsaldri. Byrjaði að skrifa greinar og fékk birtar á vefnum www.kreml.is á árunum 2003 – 2004 eða þar til honum var lokað. Hef síðan af og til fengið birtar greinar í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Skrifaði blogg þegar þegar efnahagshrunið dundi yfir og var mjög virk á árinu 2009. Tek hér saman allar mínar greinar og vonast til að hér megi þær liggja.
fimmtudagur, 27. febrúar 2014
Gerast áskrifandi að:
Ummæli (Atom)
Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Eitt af því sem maður þarf að meðtaka verandi kona er að allt sem þykir „kvenlegt“ er ómerkilegt. Nýtur ekki sjálfgefinnar virðingar eins og...
-
Málflutningur leikskólakennara og stjóra í þá veru að senda konum skömmina af því að vilja vinna fullan vinnudag hefur náð svo miklum árangr...
