sunnudagur, 4. nóvember 2012

Íslenskt samfélag árið 2012

„Ég átti að taka 10 fyrir hádegi og 10 eftir hádegi“ sagði stúlkan sem lögreglan frelsaði úr höndum vændismansals fyrr á árinu. Á Íslandi á árinu 2012. Segir okkur að meðal okkar ganga karlmenn – ungir og gamlir í hópum sem eru tilbúnir að svala kynkvöt sinni með þræl sem lokaður er inni kjallara til þess eins að þjóna þeim nótt og dag.

Í vikunni fór hátt í umræða um aðferðir nemendafélaga menntaskólanna til að auglýsa viðburði sína. Aðferðirnar sem valdar voru og samþykktar innan hópsins voru „að sýna stúlku kynferðislega áreitta og neydda til munnmaka við dreng. Í hinu tilfellinu var stúlka á hnjánum að veita strák í sigurvímu tott. Stelpur þjóna, strákar njóta.“ Eins og Hrafnhildur Ragnarsdóttir orðar það í grein sinni á smugunni „Ég þarf feminisma.“http://blogg.smugan.is/hrafnhildur/2012/11/01/eg-tharf-feminisma/

Sorgin sem fréttir af þessu valda mér verður ekki með orðum lýst. Er til of mikils mælst að við upprætum vændismansal innan okkar 300 þúsund manna samfélags? Viljum við lifa við það að raunveruleiki Lilju forever sé raunveruleiki ungra stúlkna á meðal okkar? Getum við lifað við það?

Ætlum við að ganga götuna lengi frameftir veg þar sem viðhorfin til kynjanna eru þau sem að ofan er lýst? Er til of mikils mælst að foreldrar, skólayfirvöld, eldra fólk, ungt fólk - við öll - gefum skýr skilaboð um að þessi viðhorf til kynjanna séu ekki samþykkt innan okkar samfélags?

Kynhvöt er ein frumþarfa mannsins. Stúlkur jafnt og drengir hafa kynhvöt og kynþarfir. Um þær og þeirra þarfir og langanir er ekki enn talað á árinu 2012. Graðar stelpur er ekki samþykktar nema í því samhengi að gredda þeirra sé til að svala greddu strákanna.

Oft hefur mér komið í hug að skrifa um þessa hluti síðustu ár. Aldrei varð af því að birta það sem ég skrifaði – undiraldan var of þung. Of erfitt að koma orðum að því sem þurfti. Nú stöndum við frammi fyrir því að unga fólkið okkar er íhaldssamara í skoðunum en ungt fólk var fyrir 20 árum. Gilzenegger er orðinn raunverulegur áhrifavaldur á viðhorf ungs fólks á Íslandi á árinu 2012. Ég fullorðin manneskjan hef orðið vitni að kappsemi manna á mínum aldri í því að styðja Gilzenegger og viðhorf hans. Fæ hroll við tilhugsunina.

Mér er ofboðið. Svo ofboðið að ég get ekki lengur orða bundist. Kynþarfir ungs fólks – drengja og stúlkna er eðlilegasti hlutur í heimi. Að ungt fólk sé upptekið af þeim hlutum er eðlilegasti hlutur í heimi. Að meðhöndla þá hluti með þeim hætti sem við verðum vitni að er úrkynjun. Virðingarleysi í hæstu hæðum og á ekki að líða.

Upphafning virðingarleysis drengja gagnvart stúlkum í kynlífsathöfnum er ekkert fyndin. Hún er dauðans alvara.

Kaup karla á kynlífsþjónustu við ungar stúlkur sem haldið er sem þrælum í okkar samfélagi á að uppræta og það strax.

Ég er með tillögu til stjórnenda grunnskólanna – gerið ungu fólki að lesa bók júgóslavnesku stúlkunnar Leilu. Og sýnið því kvikmyndirnar Lilja forever og 90 minutes eftir norska leikstjórann Evru Sörhaug. Skapið umræður um þessi mál á meðal ungs fólks.

Við verðum að bregðast við og sveigja samfélagið af þeirri braut sem það er á. Við erum fólkið til að gera það.

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...