Bankastjóri bankans míns fékk 10 milljóna króna eingreiðslu fyrir það að hefja störf. Ég tók lán í sama banka upp á 12 milljónir árið 2006.
Stuttu eftir að fréttir bárust af eingreiðslunni og mánaðarlaunum bankastjórans velti ég upp þessu samhengi hlutanna í samtali við mann í íslensku viðskiptalífi. Viðkomandi fannst þetta fullkomlega eðlileg ráðstöfun hjá bankanum að greiða manninum eingreiðsluna - hann hefði jú „risikerað" starfi sínu hjá annarri fjármálastofnun með því að taka stöðuna. Annað hvort væri nú að greiða manninum almennilega fyrir að risikera svo veigamiklu hlutverki.
Við komumst aldrei svo langt að ræða lánið mitt eða hvaða afleiðingar sú lántaka hefði á mitt líf.
Það kom heldur ekki til tals að eingreiðslan til bankastjórans er hærri upphæð en mér hefur tekist að hafa í árslaun sem starfsmanni íslensks viðskiptalífs á þriðja áratug.
Ég og bankastjórinn sátum fyrir 23 árum sitt hvoru megin við samaningaborð og vorum fulltrúar síns hvors samningaaðilans - enda störfuðum við lengi í sömu atvinnugrein. Síðan eru liðin mörg ár og ég orðin miðaldra kona - enn í sömu atvinnugrein - hann orðinn miðaldra karl og stjórnandi í fjármálageiranum.
--------------------------------------------
Lántaka upp á 12 milljónir íslenskra króna árið 2006 er afstætt hugtak og ómögulegt að henda reiður á því hvað það þýðir haustið 2011 í sama samfélagi.
Nýjasta niðurstaða bankans segir að ég skuldi honum í dag:
Níumilljónirþrjúhundruðsjötíuogsjöþúsundeitthundraðsjötíuogfimm JPY - japönsk jen og Eitthundraðogtvöþúsundeitthundraðþrjátíuogþrjár48/100 CHF - svissneska franka. Skv. sölugengi á vef bankans í dag gera þetta tæplega 28. milljónir íslenskra króna. (Skv. netbankanum rétt tæpar 30 milljónir).
Bankinn sem lánið var tekið hjá er farinn á hausinn og bankinn sem tók við láninu fékk afskrifaðan stóran hluta þess.
Komið hefur á daginn að lánasamningur bankans frá árinu 2006 var ólöglegur gjörningur.
Ítrekað hefur komið fram í fréttum að þessi stofnun - bankinn - þar sem ég lagði launin mín inn á reikning frá því ég hóf störf á íslenskum vinnumarkaði fór ekki alltaf eftir ströngustu reglum um bankastarfsemi. Má mikið vera ef ekki verður staðfest að hann hafi í mörgu farið glæpsamlega að ráði sínu.
Varla hægt að efast um það lengur að hann - bankinn - ber mikla ábyrgð á því efnahagslega hruni sem varð á Íslandi og þar með verið stór áhrifavaldur í því að 12 milljónina skuldin mín við bankann hefur umbreyst í 30 milljónir.
Á laugardaginn mætti 2000 manns á þingsetningu við Austurvöll og viðhafði mótmæli. Hópurinn mótmælti með hávaða og eggjakasti núverandi ríkisstjórn með Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrím J. Sigfússon í broddi fylkingar.
Ólafur Ragnar Grímsson forseti íslenska lýðveldisins hélt ræðu þar sem hann krafði þingheim um sættir milli „þings og þjóðar" eins og hann orðaði það.
Davíð Oddsson ritstjóri Morgunblaðsins flytur okkur fréttir af getuleysi og óstjórn núverandi ríkisstjórnar. Þingmenn stjórnarandstöðunnar - Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks taka undir sönginn.
Forystumenn í íslensku atvinnulífi hafa ekki annað fram að færa en að núverandi ríkisstjórn sé um að kenna allt sem við er að etja í íslensku efnahagslífi dagsins í dag. Jóhanna og Steingrímur skulu fara frá svo við geti tekið fólk sem treystandi er fyrir stjórnartaumunum í landinu.
Er það skrítið að manni finnist samhengi hlutanna í stjórnmálum á Íslandi stundum dálítið undarlegt?
Höfundur þessa bloggs er alin upp á Melum í Hrútafirði og hefur haft ólæknandi áhuga á samfélaginu frá barnsaldri. Byrjaði að skrifa greinar og fékk birtar á vefnum www.kreml.is á árunum 2003 – 2004 eða þar til honum var lokað. Hef síðan af og til fengið birtar greinar í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Skrifaði blogg þegar þegar efnahagshrunið dundi yfir og var mjög virk á árinu 2009. Tek hér saman allar mínar greinar og vonast til að hér megi þær liggja.
Gerast áskrifandi að:
Ummæli (Atom)
Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Eitt af því sem maður þarf að meðtaka verandi kona er að allt sem þykir „kvenlegt“ er ómerkilegt. Nýtur ekki sjálfgefinnar virðingar eins og...
-
Málflutningur leikskólakennara og stjóra í þá veru að senda konum skömmina af því að vilja vinna fullan vinnudag hefur náð svo miklum árangr...