mánudagur, 4. júlí 2011

Ég opinberaði . . .

það sem ég hefur búið um sig í huga mér lengi. Það sem ég hef sagt upphátt við félaga mína í langan tíma - en ætlaði samt aldrei að segja opinberlega.

Ég hef alltaf vitað að besta veganestið á framabraut á Íslandi er að vera karlmaður í Sjálfstæðisflokknum - það að vinna vel og af heilindum skipti miklu minna máli. Ég hef oft fjallað um það. Hef samt aldrei sagt það hreint út áður að það að vera af kvenkyni og andstæðingur Sjálfstæðisflokksins ynni beinlínis á móti manni. Nú er það farið í loftið og verður ekki aftur tekið.

Vonandi rennur sá dagur upp einhvern tíma að hægt verði að tala um það opinberlega - á heiðarlegan og opinskáan hátt - en sá tími er sannarlega ekki runninn upp enn. Til þess er vald Flokksins enn of sterkt.

Játa það opinberlega að síðustu vikur, mánuði og ár hefur byggst upp innra með mér gríðarleg reiði út í þennan flokk - Sjálfstæðisflokkinn. Á sama tíma þykir mér mjög vænt um marga sem fylgja þessum sama flokki og ber virðingu fyrir þeim. Það er á tíðum erfið staða að lifa með.

Skortur flokksmanna á auðmýkt gagnvart þeirri stöðu sem við öll erum í er sárt og vont að upplifa. Að upplifa hrokann og drambsemina á uppgangstímanum var eitt - að þurfa að búa við sama hroka og dramsemi þegar allt er farið fjandans til er erfiðara.

Að upplifa það beinlínis - hlusta á það dag eftir dag eftir dag - að enginn geti stjórnað þessu landi annar en Sjálfstæðisflokkurinn. Að allt sé hér í volæði vegna þess eins að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki við völd viðurkenni ég að ég tek persónulega. Að lesa blaðagreinar forystumanna íslensks atvinnulífs þar sem einungis vantar í fyrirsögnina - að það eina sem sé að í íslensku samfélagi sé að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki við völd - er erfitt að kyngja.

Að lesa leiðara og blaðagreinar mætra manna sem ég ber virðingu fyrir setja Flokkinn ítrekað í öndvegi tekur á.

Þeir eru ófáir síðustu vikur og mánuði sem hafa sagt mér að ég „megi ekki taka þetta svona inn á mig". Að ég verði að læra að hætta á hlusta á fréttir. Hætta að láta líf mitt snúast um pólitík og snúa mér að öðru. Því sem er gott og skemmtilegt.

Ég leyfi mér enn að ráða þessu sjálf. Ég er pólitísk og mun verða svo lengi sem ég dreg andann. Ég trúi því að pólitík skipti máli og að vond pólitík hafi komið okkur á þann stað sem við erum. Ef það er eitthvað sem ég vil að við lærum af því sem hér gerðist síðasta áratuginn þá er það að við eigum að ræða pólitík. Að við eigum að vera pólitísk.

Ég trúi því staðfastlega og hef fyrir því ótal rök að Sjálfstæðisflokkurinn sé helsti dragbíturinn á jákvæðar breytingar í íslensku samfélagi. Flokkurinn sem getur ekki klofnað. Flokkurinn sem segist vera flokkur frjálsar samkeppni en berst fyrir viðskiptahöfum með kjafti og klóm. Flokkurinn sem flestir íslenskir karlmenn í stjórnum íslenskra fyrirtækja styðja og fylgja eins og hjörð. Án gagnrýni.

Ég hef sagt það áður og segi það enn: það á enginn ekki að sætta sig við að lúta forystu slíks hóps. Að lúta forystu gagnrýnislausrar hjarðar eftir það sem á undan er gengið er til of mikils mælst.

Á þessu byggir reiði mín. Hvort ég á rétt á henni er annað mál - en hún er þarna.

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...