þriðjudagur, 3. maí 2011

Lögmálið um hækkun verðlags

Verður oft hugsað til pistils Margrétar Rúnar kvikmyndargerðarmanns í útvarpinu fyrir margt löngu þar sem hún gerði grein fyrir muninum á því að vera Þjóðverji eða Íslendingur. Hún hafði farið í hverfisbakaríið um morguninn og skildi ekkert í því að fyrir utan bakaríið stóðu fínu frúrnar í pelsunum sínum og var heitt í hamsi. Inni í bakaríinu var enginn. Þegar hún vildi vita hverju þetta sætti kom í ljós að brauðið hafði hækkað um pfenning í verði! Það vildu frúrnar ekki sætta sig við og keyptu því ekki brauðið!

Margréti fannst þetta að vonum stórmerkileg upplifun. Verandi Íslendingur með enga verðvitund eftir að hafa alist upp við stöðuga verðbólgu og lögmálið eina um hækkun verðlags alla tíð.

Ég heillaðist af þessum pistli og hef munað hann alla tíð síðan. Fyrir mér snerist þessi saga um grundvallaratriði. Þær afleiðingar sem það hefur á venjulegt fólk í samfélagi að lifa við óstjórn efnahagsmála og óðaverðbólgu ár eftir ár áratug eftir áratug. Þær afleiðingar að fólk lítur á það sem eðlilegan hlut að allt hækki - alltaf. Aðhald neytandans verður ekkert.

Ég ólst upp í þessum kringumstæðum. Þar sem það eitt gilti að eyða peningunum jafnharðan og þeirra var aflað. Að hlutirnir kostuðu eitt í búðinni í dag og annað á morgun. Ég lærði að umbera hækkanir verðlags án þess að segja neitt. Það var eðlilegt ástand.

Að alast upp við verðbólgu sem eðlilegt ástand er engu samfélagi hollt. Að alast upp við almenna óstjórn efnahagsmála er engu samfélagi hollt. Að alast upp með íslensku krónuna sem gjaldmiðil er beinlínis skaðlegt.

Ástæða þess að ég rifja þessa sögu upp er það fullkomna virðingarleysi sem ég upplifi af hálfu opinberra aðila í þessu samfélagi þessi misserin. Framkomu sveitarfélagsins Reykjavíkurborgar og fyrirtækisins Orkuveitu Reykjavíkur. Dónaskapinn sem þessir aðilar sýna og finnst sjálfsagt. Það er ekkert sjálfsagt við það og það er ástæða til þess í það minnsta að fjalla um það opinberlega.

Það sem ég kalla fullkomið virðingarleysi og dónaskap er að senda út í upphafi árs bréf til borgarbúa þar sem tilkynnt er si svona að frá og með næstu mánaðarmótum - 1. febrúar 2011 muni Orkuveita Reykjavíkur innheimta vatns- og fráveitugjald mánaðarlega af íbúum sveitarfélagsins.

Bréfið er sent út hálfum mánuði áður en innheimtan byrjar skv. þessum nýju reglum. Engin kynning á málinu fyrirfram. Ekkert. Bara versgú - gjörðu svo vel að borga það sem okkur dettur í hug að rukka þig um. Engar upplýsingar um að þessi gjöld hafi áður verið hluti fasteignagjalda. Engar upplýsingar um á hvaða forsendum gjaldtakan er ákvörðuð. Ekkert. Bara seðill sem tilkynnir að frá og með næstu mánaðarmótum sé þér gert að greiða mánaðarlega greiðslur sem heita frá og með þeim degi „vatns- og fráveitugjöld".

Sagan er ekki öll. 18. apríl 2011 kemur annar sambærilegur seðill. Nú er það tilkynning um hækkun á viðkomandi gjöldum. Enn engar upplýsingar. Ekki er á þessari tilkynningu stafkrók að finna um hækkun gjaldskrár. Bara ný „álagning" eins og það heitir. Eins og hún hafi komið af himnum ofan - engin skýring - ekkert. Aftur versgú - gjörðu svo vel að borga okkur það sem þér ber.

Í millitíðinni hafði Reykjavíkurborg sent heim miða þar sem tilkynnt var að frá og með 1. maí þyrfti maður annað hvort að taka upp á því að fara annað hvort í göngutúr með ruslatunnuna sína vikulega í veg fyrir sorpbílinn eða að greiða aukalega 4.800 krónur til að fá hana losaða.

Það er eitt að sætta sig við hækkanir opinberra fyrirtækja og borgarsjóðs. Það er annað að sætta sig við virðingarleysi og að vera meðhöndlaður eins og slíkir hlutir sem hér er fjallað um komi manni ekki við og séu sjálfsagðir.

Það er ekki að fara fram á mikið að krefjast þess af opinberum aðilum að þeir í það minnsta kynni grundvallarbreytingar fyrir þá þjónustu sem þeir veita. Að þeir hagi sér ekki eins og vasar íbúanna séu þeirra tekjulind sem þeir mega ganga í eins og þeim sýnist.

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...