sunnudagur, 20. mars 2011

Í sambúð með Sjálfstæðisflokknum

Það er áhugavert að skoða fyrirsagnir greinasafns míns frá þessum áratug. Af þeim má lesa að oftar en ekki hefur karlaveldið verið mér tilefni til setjast við skriftir.

Þessi fyrsti áratugur aldarinnar á Íslandi hefur um margt verið sérstakur en umfram allt hefur hann einkennst af rembu. Rembu karlaveldisins á Íslandi sem hefur barið sér á brjóst og talið sig kunna betur að reka fyrirtæki og þjóðfélag en allir aðrir í heiminum.

Við vitum nú hversu mikil innistæða var fyrir þessari rembu. Í ljós hefur komið að íslenskir karlmenn kunna ekki betur að reka fyrirtæki en aðrir - má mikið vera ef þeir kunna það ekki síður en aðrir. Hæfileikar þeirra í að reka þjóðfélag hafa heldur ekki reynst meiri en annarra - margt sem bendir til að þeir hafi alls ekki kunnað að reka þjóðfélag. Í það minnsta er samfélagið Ísland í verulegum vanda eftir hrunadans þessa áratugar þar sem remban var í algleymingi.

Markaðurinn er stórskaddaður - svo mjög að stór hluti fyrirtækja í landinu er í fangi ríkisins beint eða óbeint. Almenningur hefur orðið fyrir stórkostlegri lífskjaraskerðingu og stór hluti hans er orðinn eignalaus, einhverjir gjaldþrota.

Þrátt fyrir fullkomið hrun þeirra stjórnmálastefnu sem rekin var á Íslandi síðasta áratuginn bólar ekkert á endurskoðun hennar hjá stærsta stjórnmálaflokki landsins Sjálfstæðisflokknum. Innan Sjálfstæðisflokksins eru langflestir karlkyns stjórnendur íslensks viðskiptalífs. Þeir eru háværir í gagnrýni sinni á núverandi stjórnvöld en ekkert bólar á sjálfsgagnrýni eða að þeir kannist við að bera einhverja ábyrgð á þeirri stöðu sem við erum í.

Ég velti því fyrir mér í grein árið 2003 hvort að aðild forsvarsmanna íslensks atvinnulífs að Sjálfstæðisflokknum ætti meira skylt við trúarbrögð en raunverulega pólitík. Ég hef fengið skýrt svar við þeim vangaveltum. Sjálfstæðisflokkurinn ætlar í engu að breyta stefnu sinni til framtíðar þrátt fyrir það sem gerst hefur þennan áratug. Hann ætlar að halda áfram eins og ekkert hafi í skorist með sömu stefnu og hingað til. Forsvarsmenn íslensks atvinnulífs ætla að leyfa honum það. Ekkert hefur breyst þar frá upphafi þessa áratugar. Aðhaldið og gagnrýnin er engin á flokkinn - en ákallið hávært að enginn geti stjórnað landinu annarr en flokkurinn.

Íslenskur almenningur er í gíslingu vondra stjórnmála vegna þessa. Frjálslyndi hópurinn innan Sjálfstæðisflokksins - fólkið sem veit og skilur að Ísland þarf að vinna að því af heilindum og ábyrgð að ná góðum aðildarsamningi við ESB setur fylgispekt við flokkinn í forgang. Ólafur Stephensen ritstjóri Fréttablaðsins skrifar hverja greinina á fætur annarri þar sem hann gagnrýnir Jón Bjarnason og stefnu hans á sama tíma er maðurinn flokksbundinn Sjálfstæðismaður. Hver er stefna þess flokks í málefnum neytenda gagnvart bændum? Þorsteinn Pálsson fer mikinn í að gagnrýna stefnu eða öllu heldur stefnuleysi stjórnvalda. Hann er sannfærður um að aðild Íslands að ESB sé forsenda þess að við náum okkur á strik. Flokkshollusta hans skipar samt æðri sess en hagsmunir almennings í landinu til framtíðar.

Það er óskemmtilegt en augljóst að stefna Sjálfstæðisflokksins er ráðandi um stjórnmálin á Íslandi í dag sem alltaf fyrr. Flokkurinn stýrir skoðanamyndun Íslendinga í einstökum málum hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Þessi flokkur hefur svo lengi verið ráðandi afl í íslensku samfélagi að því verður ekki hrundið svo auðveldlega. Þetta vita forystumenn í flokknum og nýta sér óspart í óábyrgri hávaðasamri stjórnarandstöðu.

Það er ekki uppbyggileg framtíðarsýn að vera borgari í þessu landi og hafa ekkert að horfa til annars en endurtekningu á fortíðinni. En það er sú framtíðarsýn sem við blasir. Einn stjórnmálaflokkur hefur aðild að Evrópusambandinu á stefnuskrá sinni og hann er í stjórn með stjórnmálaflokki sem vinnu að því öllum árum að veikja stöðu Íslendinga í aðildarviðræðunum.

Forsvarsmenn íslensks atvinnulífs gera ekkert í því að hafa áhrif á þessa stöðu - skipta sér ekki af henni eins og aðildarviðræðurnar komi þeim ekki við. Að Sjálfstæðisflokkurinn komist til valda aftur skiptir Samtök atvinnulífsins mun meira máli en aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Hagsmunir bænda og hagsmunir útgerðarmanna er það sem stjórnmálamenn íslenskir sjá ástæðu til að tala um í sambandi við aðildarviðræður við ESB. Hagsmunir bænda í því að viðhalda háum tollum á innfluttar landbúnaðarafurðir. Stjórnmálamönnum íslenskum er mjög umhugað um það.

Hagsmuni mína sem íslensks neytanda - hagsmuni mína sem íslensks launþega, hagsmuni mína sem venjulegs íslensks borgara hugsar enginn um.

Þessi staða liggur að baki ummælum mínum að mér sé varla vært í samfélagi með forsvarsmönnum íslensks atvinnulífs í Sjálfstæðisflokknum lengur. Þeir brugðust mér í upphafi þessa áratugar í að gera augljósar kröfur til síns flokks og þeir gera það enn.

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...