miðvikudagur, 24. nóvember 2010

24. nóvember 2010

Birt á bloggi 24. nóvember 2010 þegar bloggari var einn frambjóðenda til Stjórnlagaþings...

Tók mér frí frá einmanalegu frambjóðandavafstri fyrir framan tölvuskjá og fór í göngu meðfram sjónum. Dásamlega fagur dagur í Reykjavík - einstaklega fagur. Sjórinn spegilsléttur, smá hvít slykja yfir Esjunni til að vekja enn frekar athygli á fegurð hennar, Akranes eins og hvít húsaþyrping við sjóndeildarhring, sól lágt á lofti.

Fegurðin þennan stutta spöl héðan frá Sundlaugaveginum til Turnsins í Borgartúninu var svo mikil að ég stoppaði oft á leiðinni bara til að horfa og meðtaka - anda að mér og taka inn. Sýnin sem blasti við mér þegar ég nálgaðist Turninn var ólýsanleg. Geislar sólarinnar skinu í gegnum glerið og gulrauð rönd eins og skar bil á milli Turnsins og byggingarinnar hinum megin við hann.

Lýg engu að ég stóð lengi hinum megin við Borgartúnið og horfði á þetta ólýsanlegra fagra listaverk sem blasti við mér. Það dróg mig til sín og ég tók þessi fáu skref alveg upp að húsinu. Rakst þar á annan frambjóðanda sem heilsaði mér og rétti mér kort - póstkort um sig. Við spjölluðum smástund - könnumst hvor við aðra og höfum gert lengi án þess að þekkjast. Tjáðum okkur hvor við aðra um fegurðina sem við okkur blasti. Vorum sammála um að það væri ekki allt alslæmt sem kennt er við árið 2007.

Ég settist inn á Kaffitár og fékk mér grænmetisböku með salati og súkkulaði með rjóma. Fletti Morgunblaðinu sem ég annars er fyrir löngu nánast hætt að líta augum hvað þá lesa. Þar var sami skætingurinn og var þar síðast þegar rakst á hann. Sami skætingurinn og er svo stutt í alls staðar í kringum mig á Íslandi í dag. Mikið rosalega er ég orðin þreytt á honum. Mikið rosalega finn ég mikla þörf fyrir virðingu í opinberri umfjöllun. Þessi skætingur - að þurfa alltaf að tala eins og allir aðrir séu vitleysingjar kallar alltaf fram í mér löngunina um að fara burt. Mig langar ekki að lifa í svona samfélagi. Mig langar ekki að lifa í samfélagi sem einkennist umfram allt af virðingarleysi. Mér finnst það vont.

Það var jafnfagurt á leiðinni til baka - bara öðruvísi fagurt. Sólin var sest og nú voru það ljósin í borginni sem lýstu upp spegilsléttan sjóinn. Aftur stoppaði ég oft á leiðinni - til að upplifa - meðtaka - fegurðina til fulls.

Ég elska Reykjavík á svona dögum. Elska það að hafa göngustíg meðfram sjónum sem gerir mér kleift að njóta þess að ganga utandyra í borginni og líða eins ég sé stödd fjarri henni. Fjarri umferðinni sem þó er rétt hjá mér.

Þegar heim kom lét ég mig dreyma um að þessa fegurð umhverfisins mætti yfirfæra á íslenskt samfélag. Þrái væntumþykju, virðingu og traust í samskiptum manna. Virðist fjarlægur draumur í ljósi vonskunnar hvert sem litið er.

Ætla á fund Stjórnarskrárfélagsins í kvöld að hlýða á erindi um forsetann og framkvæmdavaldið.

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...