fimmtudagur, 24. september 2009

Morgunblaðið – Im Memoriam

Mér er hryggð í huga. Sú frétt sem látið hefur verið að liggja síðustu vikurnar reyndist rétt. Árvakur eigandi Morgunblaðsins réði Davíð Oddsson fyrrverandi borgarstjóra, forsætisráðherra og seðlabankastjóra í stól ritstjóra í dag. Þar með lýkur ástar- haturssambandi mínu við þetta blað sem staðið hefur meiri hluta minnar ævi.

Ég ólst upp við „hin trúarbrögðin" Framsóknar- og samvinnufélagamegin sem þýðir að mér var innrætt að Morgunblaðið væri blað „hins vonda". Ég var tiltölulega ung þegar ég fór að setja spurningamerki við ýmislegt af því sem mér var innrætt en kynntist þó ekki Morgunblaðinu af eigin raun fyrr en ég fluttist til Reykjavíkur 16 ára gömul. Ég varð fljótt mjög hrifin. Blaðið var efnismikið og ótrúlega fjölbreytt ef maður horfði framhjá því sem augljóslega var pólitísk stefna blaðsins. Að mínu mati mun betra blað en Tíminn sem ég ólst upp við að ekki sé minnst á Þjóðviljann sem mér fannst fremur ómerkilegt áróðursrit þrátt fyrir að aðhyllast frekar vinstri stefnu.

Ég lærði með öðrum orðum sem lesandi fljótt að bera óendanlega virðingu fyrir þessu dagblaði sem ég var um leið ótrúlega reið úti vegna áhrifavalds þess. Ástar- haturssambambandið við þetta dagblað Morgunblaðið hófst.

Það fór ekki framhjá mér fremur en nokkrum öðrum hverjar voru pólitískar skoðanir blaðsins og að blaðið var fyrst og síðast málgagn Sjálfstæðisflokksins. Það var oft erfitt að lifa í íslensku samfélagi þessara tveggja valdablokka sem hér ríktu um áratugaskeið og ekkert hef ég þráð meir í mínu lífi en að okkur tækist að brjótast undan þeirri skelfingu.

Ég hélt um tíma að það mundi takast en allar götur frá því í október í fyrra hefur sú trú mín dofnað sífellt meir.

Morgunblaðið hefur leikið risastórt hlutverk í þessari sögu allri og henni er ekki lokið enn. Blaðið hefur átt góða tíma og slæma tíma. Síðustu árin undir stjórn Styrmis Gunnarssonar ofbauð mér oft grímulaus afturhaldsáróðurinn en lengst af var ég nú samt tryggur áskrifandi og lesandi. Sagði því meira að segja ekki upp þegar fjöldi skoðanabræðra og systra gerði það vegna yfirgengilegs áróðurs blaðsins.

Morgunblaðið er að mínu mati eitthvað sterkasta vörumerki sem til er á Íslandi og átti á sínum tíma þegar það loksins fékk samkeppni alla möguleika á því að halda yfirburðum sínum í þeirri samkeppni. Það kaus aðra leið. Það kaus að fara í heilagt stríð gegn samkeppninni og öll meðul voru notuð til að brjóta samkeppnina á bak aftur. Gekk meira að segja svo langt að keyra átti í gegn lög til að losa blaðið við samkeppnina. Á sama tíma varð blaðið sífellt leiðinlegra, þröngsýnna og afturhaldssamara og lesendum fækkaði jafnt og þétt.

Tilkynningin um ritstjórann í dag markar fyrir mér tímamót. Tímamót um að afturhaldsvaldaklíkan í Sjálfstæðisflokknum ætlar ekki að gefast upp - heldur berjast til síðasta blóðdropa. Fyrir mér þýðir það aðeins eitt - áframhaldandi illvíg og hatrammar deilur trúarbragðastjórnmála þar sem einskis verður svifist í að berjast um völdin.

Því er komið að slitum ástar- haturssambands míns við þetta blað og ég kveð það með þakklæti uppfull af sorg. Það er sorglegra en tárum taki að fara svo illa með virt dagblað og ótrúlega sterkt vörumerki eins og Morgunblaðið óhjákvæmilega er og hefur verið í íslensku samfélagi.

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...