Ég er reið yfir því sem gerst hefur eins og Lára Hanna lýsti að þjóðin væri í kvöld. Ég er sammála henni að það skortir von - ljós við enda ganganna. Ég er sammála henni að ástandið er óþolandi og það er á stundum hreinlega vont að vera í íslensku samfélagi þessa daga. Ég get líka verið sammála henni um að það er áreiðanlega ekki allt eins og skildi við vinnubrögð eða viðbrögð íslenskra embættismanna við því sem gerst hefur. Íslendingar eiga margt ólært þegar kemur að almennum leikreglum. Það höfum við lengi vitað enda búið við sérkennilegt stjórnarfar trúarbragðastjórnmála í áratugi sem um margt á áreiðanlega meira skylt við Rússland en vestrænt lýðræði. Ég viðurkenni líka að ég nýt þeirra forréttinda að hafa enn vinnu og er því ekki í jafn slæmri stöðu og margir.
EN ég er algjörlega ósammála því að það sé hægt að „flýta réttlætinu". Ég er algjörlega ósammála og reyndar algjörlega miður mín að gömul vinkona mín uppfull af réttlætiskennd geti látið annað eins út úr sér. Á hvaða leið erum við eiginlega? Ætlum við með íslenskt samfélag á sama stað og viðgengst hér fyrr á öldum? Ætlum við með íslenskt samfélag á þann stað að menn verði dæmdir sekir án dóms og laga? Er það „réttlætið" sem íslenskur almenningur heimtar?
Mér er gjörsamlega ofboðið og það ekki í fyrsta skipti síðan hrunið varð. Við Íslendingar getum ekki verið svona gjörsamlega ábyrgðarlaus. Við búum í samfélagi. Samfélagi sem við höfum sammælst um að skuli fylgja ákveðnum leikreglum. Leikreglum þar sem enginn telst sekur fyrr en sekt hans er sönnuð. Samfélagi þar sem enginn skal leiddur fyrir rétt nema fyrir því sé rökstuddur grunur að viðkomandi hafi brotið af sér. Þetta eru algjörar grundvallarreglur sem ég vil geta gengið að vísum. Ég vil búa í siðuðu samfélagi. Réttarríki - umfram allt annað. "Réttlæti" tekur tíma.
Málflutningur af því tagi sem Lára Hanna bauð mér upp á í Spegli Ríkisútvarpsins rétt áðan - að heimta að einstökum mönnum sé stungið inn af því það hentar íslenskum almenningi til að fá útrás fyrir hefndarþorsta sinn er óboðlegur og óþolandi og þar að auki stórhættulegur.
Þetta er jarðvegur sem íslenskir stjórnmálamenn hafa meðal annarra ýtt mjög undir allar götur frá því að hrunið varð. Stjórnarandstaðan á Alþingi með Vinstri græna í broddi fylkingar ýtti undir jarðveg af þessu tagi leynt og ljóst dag eftir dag eftir dag þegar íslenska þjóðin þurfti ekki á neinu öðru að halda en þingmenn létu sér annt um hana. Þeir hughreystu hana, töluðu í hana jákvæðni og bjartsýni. Stjórnarandstaðan hagaði sér með algjörlega óábyrgum hætti og ól á múgsefjun . Nýja stjórnarandstaðan er við sama heygarðshornið. Elur á sundrungu. Lætur að því liggja að Íslendingar geti sem best sleppt því að standa við skuldbindingar sínar. Elur á þjóðernisrembu og ábyrgðarleysi alls almennings gagnvart því sem gerst hefur.
Við þurfum ekki á svona skelfilegum fullyrðingum að halda. Við þurfum ekki á því að halda að fólk á Alþingi tali af fullkomnu ábyrgðarleysi um það sem gerst hefur. Við þurfum ekki á því að halda að fjölmiðlar ali á sundrungu og upplausn samfélagsins. Þetta ástand getur endað með skelfingu.
Má ég biðla til stjórnmálamannanna að skilja þetta? Má ég biðja þá um að vanda sig þegar þeir tala? Má ég biðja fjölmiðlana í þessu landi þess sama? Má ég biðja þá sem eiga að hafa forystu í þessu samfélagi að tala af skynsemi ?
Við þurfum ekki myrkar miðaldir eða nornaveiðar fyrri alda. Slíkt ástand hefur ekkert að gera með „réttlæti".
Höfundur þessa bloggs er alin upp á Melum í Hrútafirði og hefur haft ólæknandi áhuga á samfélaginu frá barnsaldri. Byrjaði að skrifa greinar og fékk birtar á vefnum www.kreml.is á árunum 2003 – 2004 eða þar til honum var lokað. Hef síðan af og til fengið birtar greinar í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Skrifaði blogg þegar þegar efnahagshrunið dundi yfir og var mjög virk á árinu 2009. Tek hér saman allar mínar greinar og vonast til að hér megi þær liggja.
miðvikudagur, 10. júní 2009
Gerast áskrifandi að:
Ummæli (Atom)
Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Eitt af því sem maður þarf að meðtaka verandi kona er að allt sem þykir „kvenlegt“ er ómerkilegt. Nýtur ekki sjálfgefinnar virðingar eins og...
-
Málflutningur leikskólakennara og stjóra í þá veru að senda konum skömmina af því að vilja vinna fullan vinnudag hefur náð svo miklum árangr...