mánudagur, 22. desember 2003

Eru kjósendur heimskir?

Oft hefur það oft hvarflað að mér að það sá álit margra þeirra sem á Alþingi sitja, a.m.k. ef marka má hvernig þeir koma fram við kjósendur sína. Kannski er það alveg rétt hjá þeim. Kannski erum við kjósendur upp til hópa einfaldlega heimsk og einföld og ekki þess verð að tekið sé tillit til okkar nema í mesta lagi í nokkra daga fyrir kosningar.

Þeir sem hafa haft áhuga á að fylgjast með því hafa ekki farið í grafgötur með að álit mitt á stjórnmálum á Íslandi er ekki mikið. Ég skil ekki og hef ekki skilið lengi um hvað stjórnmál á Íslandi snúast og ekki er það skýrara fyrir mér nú eftir síðustu kosningar eða í kjölfar þeirra.

Eins og við öll fylgdumst með sem á annað borð reynum enn að sýna áhuga á stjórnmálum þá fjallaði kosningabarátta flokkanna fyrir síðustu kosningar fyrst og fremst um skattalækkanir. Við allur almenningur í þessu landi höfðum það nú svo ósköp gott að það eina sem gat höfðað til okkar var þetta atriði. Meiri peningar í budduna fyrir okkur hvert og eitt. Það þarf ekki að orðlengja það að flokkarnir reyndust hafa rétt fyrir sér. Kjósendur leyfðu þeim að gera skattalækkanir að máli málanna. Það var það sem hæst bar í umræðunni - fyrir jú utan enn eina fyrirferðarmikla umræðu um kvótakerfið sem ekkert hefur skilið eftir sig annað en fjóra þingmenn Frjálslynda flokksins á þingi. Hvort að þeir þingmenn eiga eftir að skilja eftir sig eitthvað sem skiptir okkur öll máli getur tíminn einn leitt í ljós.

Hvað gerðist í kosningunum? Við almenningur fengum yfir okkur þá stjórn sem við báðum um - áframhaldandi stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Reyndar má segja ef maður er fullkomlega raunsær þá var líklega enginn annar kostur í spilunum. Sorgleg staða en sönn.

Þegar ég horfði á fréttirnar í fyrrakvöld þá datt mér fyrst í hug að ég væri orðin þátttakandi í skáldsögu George Orwell Animal farm - ég er viss um að svo hefur verið með marga. Þetta getur ekki verið að gerast hugsaði ég - eru mennirnir endanlega gengnir af göflunum? Hvernig í ósköpunum getur það verið að mönnunum detti þetta í hug - á þessum tímapunkti af öllum? Eru stjórnmálamenn á Íslandi svo gjörsamlega á skjön við allan raunveruleika að þeir hafi enga tilfinningu fyrir því hvað er að gerast í kringum þá? Hvernig geta þeir leyft sér og það án þess að blikna að koma fram með frumvarp um breytingar á eigin launakjörum tveimur dögum fyrir frestun þings? Og það í kjölfarið á þeirri háværu umræðu að nauðsynlegt sé að almenningur taki á sig allar byrðarnar við aðhaldið í ríkisfjármálum? Hvernig getur það gerst að þingmenn úr öllum- ég endurtek - öllum stjórnmálaflokkum geta orðið sammála um að leggja slíkt frumvarp fram á slíkum tímapunkti? Láir mér það einhver að mér hafi dottið í hug Animal farm eftir George Orwell?

Í ljósi þeirra tilfinninga sem þarna helltust yfir mig skil ég viðbrögð verkalýðsforingjanna fullkomlega. Þeir hafa á undanförnum vikum og mánuðum lagt sig fram um að vera ábyrgir í umræðunni. Þeir hafa talað á varfærnum nótum og lagt sig í líma við að sýna okkur almenningi að þeir væru traustsins verðir. Þeir hefðu hug á að læra af mistökum fyrri tíma og halda áfram á þeirri braut sem þeir hafa markað á undanförnum árum. Að leita eftir samningum til lengri tíma með hóflegum launahækkunum. Það gekk meira að segja svo langt að það var nánast eins og það að setjast að samningaborðið væri óþarft. Þannig heyrði ég ekki betur en Ari Edwald framkvæmdastjóri viðsemjenda þeirra léti hafa eftir sér að honum litist vel á kröfugerðina eða alla vega ekki illa.

Þessi ábyrga umræða verkalýðsforingjanna og viðsemjenda þeirra hefur skipt okkur öll máli. Umræða á slíkum nótum vekur nefnilega traust okkar almennings. Við almenningur á Íslandi sem mörg hver höfum upplifað tíma óðaverðbólgu og mestan part ófrið á vinnumarkaði vitum hvers virði stöðugleikinn er. Við vitum líka hvers virði friðurinn er. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða (að sjálfsögðu af fullkomnu ábyrgðarleysi) að meirihluti þjóðarinnar vill ekki ófrið eða óvissu á vinnumarkaði. Á tímum eins og undanfarna mánuði þegar stjórnvöld hafa hent hverri sprengjunni á fætur annarri í andlit launafólks þá hafa það verið fyrst og fremst verið hagsmunasamtök vinnumarkaðarins sem hafa alið með okkur traust á framtíðinni. Einmitt þess vegna er svo gjörsamlega ómögulegt að skilja þessa gjörð stjórnmálamannanna. Það eru jú einu sinni þeir sem eiga að vekja með okkur traust og öryggi. Þeir hafa ekki það hlutverk að kasta sprengjum inn í þjóðlífið en hvað hafa þeir gert annað á undanförnum mánuðum? Hvaða samfélagslegu ábyrgð hafa þeir sýnt okkur almenningi á undanförnum mánuðum og vikum? Hvaða hugmyndir hafa stjórnvöld haft í frammi til að hemja ríkisútgjöld á næstu misserum? Hverjar hafa efndirnar verið á kosningaloforðunum?

Hækkun bensíngjalds
Lækkun vaxtabóta
Niðurfelling greiðslu bóta fyrir 3 fyrstu daga atvinnuleysis
Frekari niðurskurður í heilbrigðiskerfinu
Samningsrof við öryrkja

Í gær heyrði ég í fréttum að verðbólga síðustu þriggja mánaða hefði mælst 4% miðað við heilt ár. Ástæðan fyrst og fremst hækkun bensíngjaldsins. Ekki í fyrsta skipti á undanförnum misserum sem ákvarðanir ríkisstjórnarinnar hafa áhrif til hækkunar vísitölunnar eða hvað með hækkun þeirra á áfengi og tóbaki um mitt ár 2001 þegar verðbólgan var farin úr böndum og allur almenningur hafði miklar áhyggjur af. Ríkisstjórnin hlustaði ekki á þær áhyggjur þjóðar sinnar þá og gerir það ekki fremur nú.

Lækkun vaxtabóta er bein skerðing tekna til framfærlslu. Ríkið ætlar að greiða tilteknum hópi minna til baka af því leiðir bein skattahækkun.

Ríkisstjórnin ætlaði sér allt þar til í gær að skerða greiðslur til atvinnulausra með því að hætta að greiða fyrir 3 fyrstu dagana í atvinnuleysi. Hún bakkaði með þá ákvörðun á síðustu stundu eftir miklar yfirlýsingar um hið gagnstæða. Ég sem kjósandi hef enn ekki heyrt rökin að baki þessari áætlun. Ég hef ekki heyrt af því að atvinnulausir ríði feitum hesti hér á landi og raunar eru atvinnuleysisbætur svo fáránlega lágar að mér er gjörsamlega hulið hvernig það fólk fer eiginlega að því að lifa í þessu samfélagi. En atvinnulausir eru eins og aðrir sem minna mega sín í þessu fyrirmyndarþjóðfélagi okkar "óhreinu börnin hennar Evu" sem enginn vill vita af.

Niðurskurður í heilbrigðiskerfinu. Gerð var úttekt á því að samruni stóru sjúkrahúsanna Landsspítalans og Borgarspítalans hefði kostað milljarð. Þar að auki kom í ljós að samruninn hafði engu skilað til lækkunar á kostnaði sem þó var meginmarkmiðið. Ríkisstjórnin gerði ekki ráð fyrir neinum kostnaði vegna samruna þessara stofnana á fjárlögum! Af því leiðir milljarður sá sem sameiningin kostaði var greiddur með fjármunum sem ætlaðir voru til reksturs heilbrigðiskerfisins. Hvar kemur niðurskurðurinn niður? Á almenningi. Almenningur skal sem fyrr fá að taka á sig vitlausa ákvarðanatöku stjórnvalda. Þeir sjá enga ástæðu til að horfast í augu við afleiðingar eigin ákvarðana og bera ábyrgð á þeim.

Það skal tekið fram að til lengri tíma getur vel verið að samruni spítalanna leiði til góðs. Ég ætla mér ekki sem leikmanni að hafa hundsvit á því. Ég ætlast aftur á móti til þess og finnst það raunar svo sjálfsagt að það þarf vart að ræða - að stjórnvöld geri ráð fyrir að slíkar stórákvarðanir sem hér um ræðir kosti peninga. Það getur ekki verið rétt að stjórnvöld geti leitt slíkar breytingar án þess að kosta til þess nokkrum fjármunum - það hreinlega gengur ekki upp.

Og þá er það framkoman við öryrkjana. Það er mál sem ég sem þegn í þessu landi skammast mín fyrir að eiga óbeint aðild að. Ég get ekki skilið hvernig stjórnvöld geta talið það sérstakt hlutverk sitt að vera í stríði við þá sem erfiðast eiga í samfélaginu. Hvorki fyrri eða seinni öryrkjadómurinn hefði átt að verða að dómsmáli hvað þá að það sé okkur samboðið að þriðja öryrkjamálið sé á leiðinni fyrir dóm. Þetta mál er stjórnvöldum til svo háborinnar skammar að það tekur ekki nokkru tali. Á sama tíma og þrír forstjórar ríkisfyrirtækja hafa gengið út með 140 milljónir fyrir það eitt að hafa hætt störfum sínum telja stjórnvöld sér það samboðið að standa í illvígum deilum við alla öryrkja á þessu landi út af 500 milljónum? Hvar er samhengi hlutanna hér? Um hvað fjallar þessi deila annað en karlmenn sem ekki þola að tapa?

Hver getur verið hissa á reiði og tilfinningahita verkalýðsforingja og almennings í landinu þegar í kjölfarið á slíkri umræðu taka þingmenn allra stjórnmálaflokka landsins sig saman um að lagfæra eigin kjör? (Mér er alveg sama þó sú lagfæring eigi einungis við hluta þeirra). Og það án þess að slíkt mál eigi að fá nokkra umræðu á þingi? Án þess að nokkrir útreikningar liggi að baki, ... si svona? Það sem skiptir máli er tímasetningin og hrokinn sem í þessari hugmynd felst. Þess vegna eru viðbrögðin svona sterk og þau eiga svo sannarlega fullan rétt á sér. Þessi hugmynd lyktar ekki af neinu öðru en því að þeir stjórnmálamenn sem eiga í hlut trúa því og treysta sem fram kemur í fyrirsögninni hér að ofan að ... kjósendur séu heimskir ... Þeir leggja þetta fram án nokkurrar kynningar eða umræðu til samþykktar ... si svona - í trausti þess að kjósendur verði jú hneykslaðir í skamma stund en verði svo fljótir að gleyma. Þannig hefur það jú alltaf verið ...

mánudagur, 15. desember 2003

Kvenna… eitthvað…

Grein upphaflega birt á www.kreml.is fyrir jólin 2003 - endurbirt á bloggi 7. nóvember 2009

Það er hræðilegt að eignast tengdætur en það er yndislegt að eignast tengdasyni. Þetta sagði kona sem ég gekk fram hjá í Kringlunni áðan. Viðhorf sem margir kannast við úr eigin lífi eða hvað?

Biblíusögurnar túlkuðu guðspjöllin sem skrifuð voru af Jóhannesi, Lúkasi, Mattheusi, Pétri, Páli o.fl. Íslandssaga Jónar frá Hriflu sagði okkur frá Garðari Svavarssyni, Hrafna-Flóka, Ingólfi Arnarsyni, Hjörleifi o.fl. "hetjum" fyrri tíma. Allt sem var þess virði að vita allar götur frá því ég hóf skólagöngu var túlkað af körlum um karla.

Uppáhaldssaga mín "Veröld sem var" eftir Stefan Zweig fjallar um karla, minnist vart á konur. Fjölmiðlar alla daga allt mitt líf fjalla um sjónarmið og túlkanir karla á því sem er. Við förum í leikhús, horfum á bíómyndir, lesum bækur og blöð þar sem fjallað er um samfélagið frá sjónarhóli karla. Viðhorf karla til lífsins og samfélagsins er viðhorfið. Það sem er samþykkt, það sem við öll göngumst við.

Um jólin komu út margar bækur sem fjalla um karlmenn. Ævisögur, skáldsögur, fræðirit og eflaust fleiri tegundir bóka. Halldór, Valtýr Stefánsson, Jón Sigurðsson, Þráinn Bertelsson - bækur um og eftir þessa menn komu allar út um þessi jól skrifaðar af körlum um karla.

Í Kastljósi í gærkvöldi talaði Svanhildur kynsystir mín og umsjónarmaður þáttarins um þrjár bækur sem komu út núna fyrir jólin og allar áttu það sameiginlegt að hafa fjallað um konur. Þetta voru bækurnar Ambáttin, Dætur Kína, þriðju bókina nafngreindi hún ekki en það mátti skilja það svo að þar talaði hún um Lindu. Hún spurði viðmælanda sinn Auði Haralds um hvað hún héldi að orsakaði að svo margar bækur kæmu út af þessu tagi.

Falla þessar þrjár bækur undir sama hatt af því einu að þær fjalla um konur? Er það eitt nægilegt að aðalpersónur bóka séu konur til að fjallað sé um þær sem sérstakan flokk bóka? Hefur einhver ykkar heyrt talað um bækurnar um Halldór, Valtý Stefánsson, Jón Sigurðsson Þráin Bertelsson og fleiri góða menn sem karlabækur? Hvað gefur þetta orðkvenna... eitthvað til kynna? Felast ákveðin skilaboð í þessu formerki kvenna...?

Ég elska jólin ekki síst vegna þess að um jól leggst ég í bækur. Á jólunum fyllist ég þessum yndislega innri friði og fæ útrás fyrir þetta gamla áhugamál mitt að lifa mig inn í líf annarra persóna á þennan hátt. Ekkert jafnast á við það að lesa góðar bækur. Á unga aldri lærði ég þessa aðferð til að komast úr sveitinni, firðinum, landinu og inn í annan heim langt í burtu. Þessi stóri heimur var ótrúlega spennandi og á tímum vildi ég helst ekkert annað gera. Að lesa um Kötlu Ragnheiðar Jónsdóttur, Casanova, Tove Ditlevsen, Heim skurðlæknanna, Undir gunnfána, ástir, örlög, líf, dauða, kynhvatir, græðgi, grimmd, hatur, örbirgð, ríkidæmi, allt milli himins og jarðar gaf mér breiðari sýn á heiminn en ég hefði annars.

Ég var ung að árum farin að rífast við pabba minn um jafnrétti allra til sama lífs hvernig sem þeir væru á litinn, af hvaða kyni sem þeir væru eða hvaða kynhneigð þeir hefðu. Ég gat ekki skilið það að inn í þennan heim væru einhverjir fæddir óæðri en aðrir. Fyrir mér var allt þetta fólk sem ég las um, mannfólk. Mjög ung varð ég öskureið þegar ég heyrði talað um "konur og menn"! Ég skildi þetta aldrei og var þá þegar farin að halda heilu fyrirlestrana um að konur væru menn! Ef þær væru ekki menn hvað væru þær þá - dýr?

Ég er enn þessarar sömu skoðunar að konur séu menn. Í því að vera maður felst m.a. það að vera ófullkominn og síbreytilegur. Menn hafa tilfinningar, skynjanir, hvatir, hver og einn á sinn persónulega hátt. Ekki er hægt að ganga að neinu vísu, einum og sama manninum finnst eitt í dag og annað á morgun, hann er óútreiknanlegur. Einmitt sú staðreynd gerir hann svo áhugaverðan.

Umhverfið mótar manninn, það hvort að maðurinn er kona eða karl, svartur eða hvítur, fæddur á Indlandi eða á Íslandi mótar hann. Það hvernig við erum á litinn eða af hvaða kyni við erum hefur líka áhrif á möguleika okkar, þannig hefur það alltaf verið og þannig er það enn.

Ég er ekki vel að mér í sögu mannkynsins en ég veit þó eins og við vitum flest að í gegnum veraldarsöguna hafa ákveðnir hópar manna á jörðinni talað sig æðri öðrum hópum. Hvítir menn vesturlanda hafa síðustu árhundruðin talið sig öllum öðrum æðri og gera enn. Menn sem voru öðruvísi á litinn voru þrælar þeirra, gengu kaupum og sölum og áttu engan rétt í heimi hinna hvítu. Það er ekki langt síðan þrælahald af þessum toga var afnumið með lögum í flestum ríkjum heims.

Fyrir okkur sem fæddumst á Íslandi upp úr miðri síðustu öld er þrælahald fjarlægt vandamál fyrri kynslóða fyrri alda - kemur okkur ekki við. Viðfangsefni okkar eru önnur. Okkar umhugsunarefni eru hvort við eigum að kaupa hlutabréf í De Code í dag eða Eimskip á morgun, hvort við eigum að kaupa stærri íbúð eða bíl eða hvort við eigum að fara í líkamsrækt ..... Þetta er veröldin okkar. Í eyrum okkar daglangt glymja fréttir af hungursneyð, stríði, hryðjuverkum og glæpum annars fólks annars staðar í veröldinni. Við kippum okkur ekki upp við þessar fréttir - erum fyrir löngu, löngu síðan orðin samdauna þeim og skynfæri okkar algjörlega dauð fyrir því að það sé verið að fjalla um fólk, manneskjur eins og mig og þig með langanir, þarfir, hvatir, tilfinningar. Í öllu þessu flóði frétta sem fyrir löngu eru hættar að vera fréttir í þeim skilningi að þær komi við okkur koma enn út ...

bækur - Guði sé lof og dýrð fyrir það. Bækur sem víkka út sjóndeildarhringinn. Bækur sem gefa okkur innsýn inn í veröld annarra manna annars staðar í veröldinni.

Bækur eins og Guð hins smáa sem fjallar um hina ósnertanlegu á Indlandi. Menn sem fæðast inn í þennan heim sem óæðri verur en dýr, menn sem eiga sér ekki viðreisnar von í samfélagi sínu frá fæðingu. Bækur eins og Eyðimerkurblómið og Eyðimerkurdögun sem fjallar um líf konu sem fæðist inn í hirðingjafjölskyldu í Sómalíu og flýr þaðan 13 ára gömul þegar á að fara að gifta hana. Stúlku sem er misþyrmt með umskurði eins og öðrum stúlkum af sama kynþætti á barnsaldri á þann hátt að maður verður ekki samur eftir að hafa lesið um það. Bækur eins og Ambáttin sem fjallar um líf ungrar stúlku í Súdan sem er tekin er til fanga og hneppt í þrælahald í nútímanum. Þrælahaldið á sér ekki einungis stað í fjarlægu landi heldur færist það í næsta nágrenni við okkur og heldur áfram þar. Bækur eins og Dætur Kína þar sem fjallað er um ofbeldi og kúgun kvenna í Kína sem byggir á árþúsundagamalli hefð. Kúgun sem vekur manni viðbjóð, reiði og ólýsanlega réttlætiskennd.

Guði sé lof að enn koma út slíkar bækur. Bækur sem fjalla um neyð og kúgun manna á öðrum mönnum. Kúgun sem kemur okkur öllum við og við skyldum aldrei gerast svo hrokafull að afneita - jafnvel þó um sé að ræða konur.

Er til of mikils mælst að við sýnum þessum bókmenntum virðingu - jafnvel þó að aðalsöguhetjurnar séu konur? Eða eigum við að fara langt inn í tuttugustu og fyrstu öldina með þann farangur að allt kvenna... eitthvað sé kjaftæði?

"Fimm þúsund ára heimsstjórn karlmannsins er vörðuð styrjöldum og misrétti... ...Sjónarmið kvenna hafa oftar en ekki verið sett til hliðar og afgreidd sem "kerlingakjaftæði". ...Guðrún gengur inn í hin helgu vé karlmanna; skoðar mýtuna, goðsöguna frá nýjum sjónarhól; - bein í baki. Niðurstaða hennar er skýr; goðsögur á öllum tímum eru skrifaðar af karlmönnum, fyrir karlmenn til þess að viðhalda veldi karlmanna... ...Kjarninn í fornum sögum er að karlmenn séu herrar jarðarinnar, sem hefji sig upp til guðs í hæstu hæðum; - himinguðir, máttugir og alvitrir... ...Hann er guð, herra jarðar, herra konunnar. Þarna liggja dýpstu rætur misréttis. Þetta sér og skilur Guðrún; - hin nýja kona sem lætur ekki skipa sér til sætis. Hún tekur sér sæti."

Úr inngangi Halls Hallssonar
Gunnar Dal. Í dag varð ég kona. Bókaútgáfan Vöxtur 1997. Bls. 7 -9.

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...