fimmtudagur, 16. október 2003

“Ég er algjörlega ópólitísk – ég kýs bara Sjálfstæðisflokkinn!”

Þessi grein birtist á vefnum www.kreml.is 16. október 2003

Þessi orð koma mér í hug í kjölfar uppákomu dagsins. Ég veit ekki eftir hverjum þau eru höfð eða hvort einhver hefur látið þessa setningu orðrétta út úr sér. Hvað um það meiningin í þessum orðum er það sem skiptir máli hér. "Ég er algjörlega ópólitísk - ég kýs bara Sjálfstæðisflokkinn!" Í þessa veruna virðist manni að ákveðnum mönnum þessa lands virðist eðlilegt að við hugsum. Á Íslandi er lýðræði í hávegum haft - það er okkur sagt og því eigum við að trúa. Hvort svo er þegar grannt er skoðað skiptir ekki máli, okkur er sagt að þannig sé það og þá er það þannig.

Eitt af grundvallaratriðum lýðræðisins er að þegnarnir hafa rétt til að láta í ljós skoðun sína... það stendur hvergi skráð svo ég viti að sú skoðun þurfi að vera rétt. Í lýðræðisríkinu Íslandi virðist það nú samt skipta öllu máli. Þú hefur ekki heimild til að láta í ljós eða viðra aðrar skoðanir en þær sem þóknast valdhöfunum. Það sem meira er þú hefur ekki leyfi til að gagnrýna málefni nema að þú gagnrýnir þau rétt.

Í nokkurn tíma hefur mér orðið tíðrétt um þann frábæra fréttaskýringarþátt Spegilinn sem er á dagskrá Rásar 2 að loknum fréttum síðdegis. Ég hef ekki átt orð til að lýsa ánægju minni yfir þessum þætti sem að mínu áliti hefur einkennst af gagnrýni og sjálfstæðum vinnubrögðum fréttamanna. Umsjónarmenn Spegilsins hafa skorið sig úr í annars mjög einsleitri umræðu. Þeir hafa spurt sig spurninga og leitað svara - hafa ekki gengið aðeinu svari gefnu.

Spegillinn er eini þátturinn þar sem fréttamenn kjósa ekki að taka það málefni sem hæst ber í umræðunni sömu tökum og allir hinir - heldur láta frumleikann ráða för. Þeir hafa verið duglegir að velta upp fleiri hliðum í umræðunni - fá okkur áheyrendur til að hugsa hlutina ekki bara á einn veg. Það er nefnilega svo skrítið að flestir hlutir eru ekki bara svartir eða hvítir, þeir eru líka brúnir, gulir og rauðir og jafnvel bleikir. Það eru ekki bara ein eða tvær hliðar á málum eins og manni virðist oft í umræðunni heldur eru þær miklu, miklu fleiri. Og Guði sé lof - það hefur verið til einn fréttaskýringarþáttur í þessu landi þar sem umsjónarmenn hafa áttað sig á þessu, einn! Ég hef a.m.k. ekki tekið eftir að þeir séu mikið fleiri. Af uppákomu dagsins að dæma þá er það einum of mikið. Við þegnar þessa lands eigum ekki fá nema eitt rétt sjónarhorn. Sú gagnrýni og það viðhorf sem heyrist í Speglinum er nefnilega "vinstri slagsíða" og slík viðhorf eru engum holl og skulu ekki líðast.

"Vinstri slagsíða" - hvað skyldi samhengi þessara orða þýða? Geta Björn Bjarnason eða Markús Örn Antonsson verið svo vinsamlegir að upplýsa okkur óupplýstann lýðinn um það? Er "vinstri slagsíða" einfaldlega það að velta upp öðrum hliðum í einsleitri umræðunni? Hvernig skilja þessir menn lýðræði?

Í sumar las ég viðtal við hjón í Morgunblaðinu, ef ég man rétt frá Slóveníu sem hafa búið hér á landi um nokkurt skeið. Ég hjó sérstaklega eftir einu sem konan (sem ég því miður man ekki hvað heitir) hafði á orði í þessu viðtali en það var hversu mjög hún saknaði pólitískrar umræðu hér á landi. Að hennar mati var algjör skortur á því hér að farið væri ofan í pólitíkina og hún rædd frá mörgum hliðum. Að hennar mati (og ég verð að deila þeirri skoðun með henni) er allt meira og minna pólitískt í umhverfinu.

Pólitík er að hafa skoðanir og taka afstöðu. En því er ekki þannig farið á Íslandi. Pólitík er eitthvað vont - það að hafa pólitískar skoðanir er eitthvað sem þú átt að skammast þín fyrir og helst að fela nema aðeins að þú sért sammála þeim flokki sem hér hefur leikið aðalhlutverkið alla öldina - Sjálfstæðisflokknum. Ef þú fylgir honum er í lagi að þú hafir skoðanir og þú mátt láta þær uppi opinberlega eins oft og lengi og þú vilt. Það eru réttar skoðanir og til þess eins fallnar að hjálpa þér að komast áfram í lífinu.

Hversu oft rekum við okkur ekki á þetta viðhorf?

Það þykir t.d. sjálfsagt hér á landi að fulltrúar ráðningaþjónusta komi fram opinberlega með fyrirlestra og láti þess getið að pólitískar skoðanir og áhugi umsækjenda í pólitík sé litinn hornauga. Oftar en einu sinni og oftar en tvisvar hef ég verið áheyrandi að því frá starfsfólki þessara fyrirtækja að það sé neikvætt fyrir umsækjendur að láta í ljós pólitískan áhuga! Þessir annars ágætu einstaklingar hafa þó aldrei gengið svo langt að segja að það að hafa aðrar skoðanir en þær sem eru þóknanlegar Sjálfstæðisflokknum séu neikvæðar. Þess hefur heldur ekki þurft það vitum við öll sem búum í þessu landi. Það þvælist ekki beinlínis fyrir ungum karlmönnum í Sjálfstæðisflokknum að komast í góðar stöður, þeim eru beinlínis boðnar þær. Það að vera trúr og dyggur Sjálfstæðisflokknum er eitthvað það besta veganesti sem þú getur haft í gegnum lífið.

Eða hvað? Hvað áttu áttu á hættu ef þú vogar þér að hafa sjálfstæðar skoðanir? Hvað með Egil Helgason? Hvað með Þorfinn Ómarsson? Hvað með Eirík Tómasson?

Vertu algjörlega ópólitískur og kjóstu Sjálfstæðisflokkinn - og þér mun vel farnast!

Munum það gott fólk og umfram allt - munum að halda kjafti um allt sem fallið getur undir "vinstri slagsíðu" og NOTA BENE það innifelur allt sem heitir gagnrýni á réttviðhorf - gleymum því ekki!

Signý Sigurðardóttir

Áhugamaður um stjórnmálaumræðuna

...og stuðningsmaður allra þeirra sem taka áhættuna á því að leyfa sér að gagnrýna það sem er ... hvort heldur það er Ólafur Teitur Guðnason, Hannes Hólmsteinn Gissurarson eða Guðmundur Steingrímsson.

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...