fimmtudagur, 25. janúar 2001

Samhengi stjórnmálamannanna

Birt á bloggi 31.10. 2008
Skrifuð 25. nóv. 2001

Mikið lifandis skelfing er ég orðin leið á þessari slagorðakenndu pólitík sem hér er uppi. Er ekki kominn tími til að stjórnmálamenn hér þurfi að gera grein fyrir því hvað þeir meina með því sem þeir segja? Hér vaða menn uppi í fjölmiðlum dag eftir dag með slagorð sem ekkert skilja eftir sig og það sem verra er - þeir komast upp með það. Það eina sem þú virðist þurfa að hafa til að bera til að geta orðið stjórnmálamaður hér á landi er að geta talað. Það hvort þú hafir einhver rök fyrir því sem þú segir skiptir aftur á móti engu máli.

Hvað á ég við með þessum orðum? Hvað er það sem kemur mér til að segja þessi orð nú? Það eru orð Gunnars Birgissonar í Kastljósi nú í kvöld. Þar sat hann og þóttist hafa uppi málflutning sem átti að vera til þess fallin að sannfæra okkur áhorfendur um að við þyrftum ekki að hafa áhyggjur efnahagsástandinu eða gengi íslensku krónunnar. Það mátti á honum skilja m.a. að frumvarp ríkistjórnarinnar til breytinga á skattalögum yrði til þess að hingað kæmu erlendar fjárfestingar í stórum stíl sem aftur yrði til þess að leysa vanda gjaldmiðils okkar. Enn einu sinni er manni boðið upp á það að nú sé búið að leysa vandann hvað varðar skort á erlendum fjárfestingum hér.

Það er þetta sem ég vil fá að vita hvað þýðir, það er þetta sem ég á við með slagorð. Hvaða erlendu fjárfestingar eiga menn von á að komi hingað, í hverju eiga menn von á að útlendingar vilji fjárfesta hér? Ég vil fá að vita hvað menn hafa fyrir sér í þessu, hvaða rök liggja að baki slíkum fullyrðingum? Eru menn að tala um fjárfestingu í stóriðju, eru þeir að tala um fjárfestingu í atvinnuvegunum, eða eru menn að tala um fjárfestingu í krónunni sem slíkri, eða hvað eru menn eiginlega að tala um???? Það kemur mér vægast sagt undarlega fyrir sjónir að á sama tíma og við blasir þörf fyrir erlendar fjárfestingar hér á landi er aldrei minnst á að það er bannað að fjárfesta í þeim atvinnuvegi Íslendinga sem hvað mestrar athygli nýtur á alþjóðavettvangi - þ.e. í sjávarútvegi. Sú umræða kemst aldrei upp á yfirborðið, menn blaðra og blaðra um nauðsyn þess að auka erlendar fjárfestingar hér, en þeir þurfa aldrei að svara því í hvaða formi þeir eiga von á að þessar fjárfestingar komi til. Mér hefur einhvern veginn alltaf fundist það blasa við að ef menn hefðu áhuga á því að fjárfesta hér á annað borð þá væri líklegast í sjávarútvegi. Af hverju? Einfaldlega vegna þess að það er sá atvinnuvegur hér á landi sem hvað mestrar virðingar nýtur á í alþjóðasamfélaginu. Í hvaða atvinnuvegi öðrum ættu menn svo sem að vilja fjárfesta hér? Að undanþeginni stóriðju auðvitað sem hingað til hefur staðið undir þeim erlendu fjárfestingum sem hingað hafa borist.

Hvaða atriði eru það sem menn horfa til þegar þeir fjárfesta? Er það eitt og sér skattalegt umhverfi sem þar hefur áhrif? Er það ekki svo að þegar menn fjárfesta þá horfa þeir til efnahagsástands í viðkomandi landi í heild sinni, þeir horfa til þess hvaða ívilnanir eru í boði , þeir líta til atvinnuástandsins, þeir líta til stöðugleika. Er til að mynda stöðugleikinn hér slíkur að slíkt sé líklegt? Er íslenska krónan svo traustur gjaldmiðill að það sé líklegt? Hannes Hólmsteinn kom hér með fyrirlestur í þessari viku til að fylgja eftir nýútkominni bók sinni þar sem hann kemur fram með þær hugmyndir sínar að Ísland geti orðið ríkasta land í heimi, svipað Luxemborg og Sviss. Hvaða atriði eru það sem hafa gert það að verkum að þessi lönd hafa orðið svo auðug sem raun ber vitni? Í þessu sambandi er mjög athyglisvert að velta fyrir sér að Luxemborg er eitt fárra landa í heiminum þar sem engar takmarkanir á erlendum fjárfestingum eru fyrir hendi. Eru þessir sömu menn og halda fram að Ísland geti orðið fjármálaparadís tilbúnir til að standa fyrir niðurfellingu allra takmarkana á erlendum fjárfestingum á Íslandi? Þ.e. að opna fyrir þær í sjávarútvegi og orkufyrirtækjum?

Horfum aðeins á það hvað kom þessum hugleiðingum af stað í upphafi, það var umræða um stöðu íslensku krónunnar. Hvað veldur því að hún er svo veik sem raun ber vitni? Það sem hefur breyst er umhverfið. Lífeyrissjóðunum er nú heimilt að fjárfesta hvar í heiminum sem þeim sýnist, þessa heimild hafa þeir nýtt sér. Mikil erlend lántaka síðastliðin ár hefur spilað stóran þátt í að halda uppi genginu hingað til, þessi lántaka hefur nú dregist saman. Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir einfaldlega meira útstreymi krónu en innstreymi. Hér hefur verið haldið uppi háum vöxtum í því skyni að auka eftirspurn eftir krónum og styrkja gengið. Hefur þessi ráðstöfun orðið til þess að hingað hafi komið erlent fjármagn í stórum stíl - eins og ætti í raun að gerast skv. lögmálum hagfræðinnar? Nei, við verðum að horfast í augu við að sú hefur ekki orðið raunin, þrátt fyrir okurvexti hefur eftirspurn eftir íslenskum krónum ekki aukist, nema síður sé. Af hverju ætti lækkun tekjuskatts á fyrirtæki frekar að hafa áhrif hér? Er það ekki einfaldlega svo að íslenska krónan er svo lítill gjaldmiðill að það kemur aldrei til að erlendir fjárfestar bíði í röðum eftir að fjárfesta í henni? Hvernig á íslenska krónan að geta staðið af sér samkeppni við sterka erlenda gjaldmiðla? Heimurinn hefur skroppið saman, fjármálamarkaðir heimsins hafa opnast sífellt meira, er ekki sannleikurinn einfaldlega sá að í þessu umhverfi á íslenska krónan sér ekki viðreisnar von?

Þess verður að geta að þessar hugleiðingar eru skrifaðar af leikmanni, kjósanda í þessu pólitíska umhverfi sem við lifum í hér á landi. Kjósanda sem bíður í ofvæni eftir því að sjá stjórnmál fara að snúast um eitthvað sem raunverulega skiptir máli en ekki einhver óhöndlanleg slagorð sem engu skila. Það er fyrir löngu kominn tími til að hér fari fram opin umræða um hvaða kostir eru raunverulega í stöðunni og hvaða afstöðu á að taka til þeirra. Það þarf að ræða hvort og hvernig við ætlum að lifa af í alþjóðasamfélagi nútímans, það er ljóst að þrátt fyrir mátt Davíðs Oddssonar og megin, er hans vilji ekki nægur til að hafa afgerandi áhrif á gengi gjaldmiðils okkar. Það hlýtur að vera hægt að gera þá kröfu til hans og hans manna að þeir tali skýrt.

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...